Viðskipti erlent

Réttar­höld hefjast í máli Bonnesen

Atli Ísleifsson skrifar
Hin dansk-sænska Birgitte Bonnesen var forstjóri Swedbank á árunum 2016 til 2019. áður hafði hún meðal annars stýrt starfsemi útibúa bankans í Eystrasaltslöndunum.
Hin dansk-sænska Birgitte Bonnesen var forstjóri Swedbank á árunum 2016 til 2019. áður hafði hún meðal annars stýrt starfsemi útibúa bankans í Eystrasaltslöndunum. Getty

Réttarhöld hefjast í dag í máli Birgitte Bonnesen, fyrrverandi forstjóra sænska stórbankans Swedbank, í Svíþjóð. Bonnesen er meðal annars ákærð fyrir gróf fjársvik og markaðsmisnotkun í tengslum við afhjúpun um stórfellt peningaþvætti í bankanum.

Upp komst um málið í fréttaskýringaþætti SVT, Uppdrag granskning, í febrúar 2019. Hlutabréf í bankanum féllu um rúmlega tuttugu prósent eftir að upp komst um málið.

Málið þykir einstakt en Bonnesen er fyrsti fyrrverandi forstjóri sænsks stórbanka sem dreginn er fyrir dóm í marga áratugi.

Efnahagsbrotadeild sænsku lögreglunnar tók málið til rannsóknar eftir sýningu þáttarins og var ákæra birt í janúar á þessu ári. Í ákæru segir að Birgitte Bonnesen eigi að hafa dreift villandi upplýsingum um aðgerðir Swedbankans til að koma í veg fyrir og tilkynna að grunur væri um peningaþvætti í útibúi bankans í Eistlandi.

Bonnesen er sömuleiðis ákærð fyrir innherjasvik þar sem hún eigi að hafa upplýst stærsta eiganda bankans um hvað kæmi fram í þætti Uppdrag granskning áður en hann var sýndur og þá áður en upplýsingarnar urðu opinberar.

Bonnesen, sem var forstjóri Swedbank á árunum 2016 til 2019, neitar sök í málinu. Áætlað er að réttarhöld standi í átta vikur. Verði Bonnesen fundin sek á hún yfir höfði sér milli sex mánaða og sex ára fangelsi.


Tengdar fréttir

Bonnesen á­kærð fyrir gróf fjár­svik og markaðs­mis­notkun

Efnahagsbrotadeild sænsku lögreglunnar hefur ákært hina dönsku Birgitte Bonnesen, fyrrverandi forstjóra Swedbank, fyrir gróf fjársvik og markaðsmisnotkun í tengslum við rannsókn á peningasvættisrannsókn sem tengir anga sína til Eistlands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×