Ópíóðafíkn verður útbreiddari með hverju árinu sem líður ef marka má nýjar tölur frá Landlæknisembættinu. Læknir á vogi segir að ópíóðafíkn sé ekki aðeins að aukast hlutfallslega, heldur sé eðli hennar breytt.
„Ópíóðar eru langt frá að vera ný efni á markaðnumn en hins vegar var það þannig að ópíóðar var oft eitthvað sem þú sást á lokastigum sjúkdómsins. Þá var fólk komið í miklu alvarlegri neyslu og þá einkenndist það af sprautuneyslu,“ segir Erna Gunnþórsdóttir, læknir á Vogi.
Nú sé fólk farið að nota ópíóða jafnvel sem fyrsta fíkniefni sem það prófar. Auk þess hafi notkun þess auðveldast með komu svokallaðra oxy lyfja, sem margir reyki.
„Þessi athöfn að nota ópíóða, þessi sterku sterku efni, verður miklu auðveldari og fólk er mjög fljótt að verða háð því.“
Fráhvörfin af ópíóðum séu sérstaklega erfið. Fólk fyllist mikilli örvæntingu og sé tilbúið til að gera hvað sem er til að koma í veg fyrir fráhvörf.
„Þetta er mjög fljótt að vinda upp á sig. Þú ert mjög fljótur að fara upp í mjög háa skammta og síðan er það að ópíóðar eru öndunarbælandi þannig að líkurnar á því að ofskammta eru háar,“ segir Erna.
Í þeim 46 sem létust úr ofskammti í fyrra fundust ópíóðalyf í fimmtán, fimmfallt fleiri en árið á undan.
„Maður myndi ekki vilja ímynda sér hver sú tala væri ef við værum ekki að grípa inn í, þess vegna er aðgengi að meðferð svo mikilvæg.“
Fleiri en tvö hundruð eru í lyfjameðferð við ópíóðafíkn á Vogi.
„Lyfin sem við notum við ópíóðafíkn, sem er gagnreynd meðferð, veldur ekki vímu heldur tekur fráhvörfin og fíknina.“