Síðasta ár hefur verið alþjóðlegum fjárfestum þungt, sérstaklega fjárfestum í skráðum sem og óskráðum tæknifyrirtækjum. Markaðsvirði meirihluti skráðra félaga á Nasdaq í Bandaríkjunum hefur lækkað um meira en 50% og yfir fjórðungur hefur lækkað um meira en 75%. Mörg fyrirtæki hafa lækkað um meira en 90%. Algengt er að óskráð félög sæki nýtt fjármagn á verðlagningu sem er brotabrot af því sem áður var mögulegt. Sem dæmi má nefna að sænski fjártæknirisinn Klarna sótti síðast fjármagn í júní miðað við verðmat upp á 6,5 milljarða Bandaríkjadala sem er 1/7 af verðmati félagsins ári áður. Að klára þetta yfir höfuð í sumar þótti ansi vel af sér vikið í ljósi markaðsaðstæðna.
Að ná að selja í þessum ólgusjó hlut í fyrirtæki á áttföldu verði hlutarins fyrir fjórum árum er, utan frá séð, ansi vel gert. Það er það sem Origo gerði í tilfelli Tempo.
Ég þekki Tempo eða tilurð þess og stöðu ekkert umfram það sem ég hef lesið um í fréttum. Af þeim að dæma hefði auðvelda leiðin fyrir Nýherja á sínum tíma verið að fara ekki í þá vegferð með Tempo sem farið var í. Það var áhættuvegferð með hugmynd sem varð til hjá starfsfólki árið 2008 eins og það er orðað í nýlegri tilkynningu.
Þegar horft er til baka þá var þetta auðvitað mikið snilldarskref hjá félaginu. Það er auðvelt að segja að Origo, eða Nýherji áður, hefði auðvitað átt að fara í þetta. Það sem gleymist þegar horft er svona til baka er að til þess að af þessu yrði þurfti að taka margar erfiðar ákvarðanir á leiðinni, taka áhættu og fjárfesta tíma og fjármagni í að búa eitthvað til sem mögulega einhvern tímann gæti orðið sigursaga. Þegar þessar ákvarðanir voru teknar var þó líklegra en hitt að ekkert yrði úr þessu, hvað þá að sigurinn yrði eins stór og raunin varð. Það var þó séns en að sama skapi er margt í skipulagi fyrirtækja og hvatar innan þeirra sem er síst til þess fallið að gera nýsköpun auðvelda. Stjórnendur þurfa að gera sér grein fyrir því og gera sitt til þess að lágmarka innra nýsköpunarviðnámið.
Að ná að selja í þessum ólgusjó hlut í fyrirtæki á áttföldu verði hlutarins fyrir fjórum árum er, utan frá séð, ansi vel gert.
Maður getur ekki annað en hugsað til þess hversu margar góðar hugmyndir eins og Tempo fengu aldrei vængi hjá þeim fyrirtækjum þar sem þær urðu til. Urðu aldrei að neinu. Slíkar ákvarðanir sjást aldrei í uppgjörum fyrirtækja. Hugmyndum, fjárfestingum og uppbyggingu sem var kuðlað saman í bolta og hent í ruslafötuna gætir ekki í uppgjörum. Það er enginn lína fyrir tap af því að hafa ekki tekið stökkið í einhverja sérstaka átt í reikningum félaga. Það verður enginn skammaður fyrir að hafa ekki stofnað Tempo. Við vitum einfaldlega aldrei af þeim möguleika.
Fyrirtæki og stjórnendur hafa þó mikinn hag af því að gefa sér ráðrúm til að finna sín Tempo verkefni. Ég er sannfærður um að margs konar þekking verður til í fyrirtækjum sem getur nýst langt umfram fyrirtækið sjálft. Tempo varð til í kringum vandamál sem starfsfólk Nýherja stóð frammi fyrir. Vandamál Nýherja voru ekki einstök og komst Nýherji að því að fleiri glímdu við sambærilegan vanda. Það er örugglega sagan víða.
Maður getur ekki annað en hugsað til þess hversu margar góðar hugmyndir eins og Tempo fengu aldrei vængi hjá þeim fyrirtækjum þar sem þær urðu til.
Ólíkt Tempo er þó algengara að snjalla lausnin sem fannst í fyrirtækinu virki þar en endi líka áhrif sín þar. Hún er líklega enn, mörgum árum eftir að hugmynd að lausn kviknaði, að virka frábærlega í fyrirtækinu en fékk aldrei vængi til að fljúga utan þess — og skapa virði í áttina að því sem Tempo skapaði. Það krefst framsýni, kjarks og mikillar einbeitingar (og kannski smá heppni í bland).
Vonandi sjáum við meiri kjark, meiri framsýni og fleiri Temposögur í framtíðinni. Til hamingju Tempo og Origo.
Höfundur er meðeigandi hjá Deloitte.