Umfjöllun og viðtal: Haukar - Selfoss 39-33 | Öruggur sigur Hauka í fyrsta heimaleik tímabilsins

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Haukar unnu öruggan sex marka sigur í dag
Hulda Margrét

Haukar unnu öruggan sex marka sigur á nýliðum Selfoss í 3. umferð Olís deildar kvenna fyrr í dag. Um var að ræða fyrsta heimaleik Hauka á tímabilinu en fyrir leik var liðið án stiga. Haukar voru með yfirhöndina allan leikinn en Selfoss gafst þó aldrei upp. Lokatölur á Ásvelli 39-33.

Leikurinn fór hratt af stað þar sem Selfoss byrjaði í sókn en eftir aðeins örfáar sekúndur höfðu Haukar skorað sitt fyrsta mark úr hraðaupphlaupi. Selfoss missti boltann í næstu sókn og Haukar keyrðu hratt í bakið á þeim sem skilaði þeim sínu öðru marki eftir aðeins 50 sekúndna leik. Var Birta Lind Jóhannsdóttir þar að verki í báðum mörkunum.

Selfyssingar skoruðu sitt fyrsta mark um þremur mínútum síðar. Haukakonur byrjuðu leikinn af örlítið meiri hörku en Selfoss og voru þær komnar í 4-2 forystu eftir tæpar tíu mínútur. Selfyssingar gáfu þá í og tókst að ná eins marks forystu á 11. mínútu. Snéru þá Haukar aftur við blaðinu og voru ekki lengi að koma sér í forystu á ný.

Eftir tuttugu mínútna leik var staðan orðin 12-9 fyrir heimakonum. Héldu þær góðri forystu síðustu mínútur fyrri hálfleiks en þeim tókst mest að koma sér í sex marka forystu. Skildu liðin þó að með fimm mörkum þegar fyrri hálfleikurinn var flautaður af. Hálfleikstölur 20-15.

Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn strax af miklum krafti og komu sér strax aftur í sex marka forystu. Selfyssingar höfðu þó ekki gefið upp öndina og gáfu þeim gott áhlaup í upphafi síðari hálfleiks. Á 38. mínútu lauk Roberta Jvanauskaité leik er hún fór meidd af velli eftir harða baráttu um boltann. Var hún þá næst markahæsti leikmaður Selfoss í dag með sex mörk. 

Eftir þetta atvik gáfu Selfyssingar enn meira í og tókst að minnka muninn í þrjú mörk er stundarfjórðungur var eftir. Það varði þó ekki lengi því Haukar náðu aftur að auka forystuna. Mátti sjá leikmenn Selfoss gefa upp öndina hver á fætum öðrum. Leiknum lauk með sex marka mun, 39-33. 

Afhverju unnu Haukar?

Haukar spiluðu heilt yfir mun þéttari handbolta. Þeir mættu mun ákveðnari til leiks og gáfu ekkert eftir hvort sem það var í vörn eða sókn. Mikið var um stolna bolta og hraðaupphlaup sem gaf þeim ákveðið öryggi í gegnum leikinn. En heilt yfir áttu þeir virkilega góðan leik. 

Hverjar stóðu upp úr?

Elín Klara Þorkelsdóttir átti virkilega góðan leik fyrir Hauka en hún skoraði níu mörk úr tíu skotum. Þar af voru tvö úr vítum og tvö úr hraðaupphlaupi en hún var einnig með eitt fiskað víti. Ragnheiður Ragnarsdóttir og Natasja Hammer voru næst markahæstar með fimm mörk hvor en Ragnheiður var með 100% skotnýtingu í dag. 

Katla María Magnúsdóttir stóð uppi í liði Selfoss í dag en hún var markahæsti leikmaður vallarins með 11 mörk. Roberta Jvanauskaité var næst markahæst með sex skot. 

Hvað gekk illa?

Það vantaði mikinn þéttleika hjá Selfossi sem varð til þess að mikið af glufum opnuðust í vörninni. Það var þó mikið um tapaða bolta beggja megin í dag og mikið af skotum sem fóru framhjá eða í rammann. Það vantaði einnig örlítið upp á markvörsluna hjá báðum liðum en skoruð voru 72 mörk í leiknum. 

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Haukakvenna er í Úlfársdalnum þar sem þær munu mæta ríkjandi Íslandsmeisturum Fram. Selfoss mun leggja leið sína norður þar sem þær mæta KA/Þór. Báðir leikirnir fara fram næstkomandi laugardag.

Ragnar Hermannson: Það þarf bara að kunna betur að spila leikinn

Ragnar HermannsonHulda Margrét

Ragnar Hermannsson, þjálfari Hauka, var mjög sáttur með stigin tvö gegn Selfoss í dag. Var þetta hans fyrsti leikur á Ásvöllum síðan árið 2004. 

"Ég er rosalega ánægður. Það sem við lögðum upp með var að ganga. Varnarlega erum við ekki nógu klók ennþá og einbeitingin stundum ekki alveg það sem ég vill sjá. Við vorum að fá á okkur svolítið klaufaleg mörk. En tempóið og vinnslan í leiknum og bara markaskorið og sóknin í leiknum var mjög fallegt." Sagði Ragnar um fyrsta sigur tímabilsins. 

"Við höfðum aðeins meiri breidd heldur en þær í leiknum og varnarleikurinn okkar á köflum gekk mun betur en hjá þeim."

Hann var ánægður með frammistöðu liðsins en telur þó langt vera í land þegar kemur að spilamennskunni.

"Það þarf bara að kunna betur að spila leikinn. Þegar þú ert kominn upp í meistaraflokk þá geturu ekki verið í því að gleyma þér stundum og vera kannski að hugsa um eitthvað annað heldur en leikinn. Þá leikinn í kvöld eða bókina eða eitthvað. Þú verður bara að vera að skila."

"Við gleymum okkur stundum og þær eru klókar. Selfoss er með tvo mjög klóka leikmenn, línumanninn og Ásdísi (Þóru Ágústdóttur). Þær refsuðu okkur grimmt þegar við gleymdum okkur."

Haukar eiga leik næstkomandi laugardag við Íslandsmeistarana í Fram.

"Næst förum við bara og spilum við stórveldið í nýju húsi uppi í Úlfarsdal, við Fram. Það verður mjög verðugt verkefni og bara skemmtilegt". 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira