Fótbolti

Palace sneri leiknum við Leeds sér í vil | Ful­ham tapaði án Mitro­vic

Atli Arason skrifar
Eberechi Eze skoraði sigurmark Palace gegn Leeds.
Eberechi Eze skoraði sigurmark Palace gegn Leeds. Getty Images

Crystal Palace kom til baka og vann 2-1 heimasigur á Leeds í ensku úrvalsdeildinni í dag á meðan West Ham vann 3-1 sigur á Fulham á sama tíma.

Pascal Struijk kom Leeds yfir þegar hann stýrði boltanum í net Palace eftir marktilraun Brendan Aaronson á 10. mínútu.

Odsonne Edouard jafnaði svo leikinn fyrir Crystal Palace á 24. mínútu þegar hann kom boltanum í netið eftir undirbúning Michael Olise.

Endurkomusigur Palace var svo fullkomnaður á 76. mínútu leiksins þegar Eberechi Eze kom boltanum í netið með skoti við enda vítateigs Leeds eftir hælsendingu Wilfried Zaha og lokatölur voru 2-1 fyrir Crystal Palace.

Með sigrinum er Crystal Palace komið með jafn mörg stig í ensku úrvalsdeildinni og Leeds. Bæði lið eru nú með níu stig eftir átta leiki í 14. og 15. sæti deildarinnar.

Í London var Fulham án markahæsta leikmanns síns, Aleksandar Mitrovic, vegna ökklameiðsla. Fulham var í heimsókn hjá West Ham og tapaði leiknum 3-1.

Andreas Pereira kom Fulham þó yfir strax á 5. mínútu leiksins en West Ham svaraði með mörkum frá Jarrod Bowen, Gianluca Scamacca og Michail Antonio.

West Ham er nú í 13. sæti deildarinnar með 10 stig eftir sigurinn. Fulham er á sama tíma í 9. sæti með 11 stig eftir 9 umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×