Soffía Ámundadóttir, hefur nú birt eigindlega rannsókn sem hún gerði í meistaranámi sínu í Stjórnun menntastofnana sem fjallar um ofbeldi sem börn í grunnskólum Reykjavíkur beita. Í ritgerðinni kannar hún reynslu stjórnenda en rauði þráðurinn í svörum þeirra er að málaflokkurinn sé hálfgerðum ólestri.
„Viðmælendur mínir skynja aukningu á ofbeldi. Ofbeldið er grófara og afleiðingar eru ekki nógu markvissar og alvarlegri birtingamyndir eru að koma fram núna í skólastarfinu. Allir voru sammála um að það væri mikil áskorun fyrir skólasamfélagið að takast á við þessi mál. Þetta væru mál sem væru erfið og viðkvæm sem tækju oft verulega mikið á.
Verulegur skortur sé á fræðslu og ofbeldisforvörnum.
„Það voru allir sammála um að það vantaði miðstýrða verkferla. Skortur er á skráningum, það þarf að virkja viðbragðsáætlun. Viðbragðsteymi er ekki til staðar og vinnuaðstæður ekki góðar. Það er ekki gert neitt áhættumat út frá nemendahópum og skólum þannig að það er í rauninni víða pottur brotinn. Starfsfólk upplifir mjög mikið óöryggi og finnst það vonlítið í krefjandi aðstæðum og þau skortir allan faglegan stuðning. Úrræðin sem í boði eru vinna ekki nógu mikið saman og biðlistarnir eru langir og það eru mjög mörg mál sem stranda á biðlistum.“
Til samanburðar sé skyndihjálp kennd annað hvert ár í öllum skólum landsins.
„Sem betur fer gerast slysin ekki oft en ofbeldi getur skólinn verið að takast á við á hverjum degi en við tökum enga fræðslu um það,“ útskýrir Soffía. Kennarar og skólastjórnendur myndu upplifa mun meira öryggi og sjálfstraust í sínum störfum ef kerfislægir verkferlar væru aðgengilegir.
Skólar þurfi þá að mæta þörfum nemenda með hegðunarvanda mun betur.
„Mínir viðmælendur töluðu um að það þyrfti að grípa mun fyrr inn í og að vera með snemmtæka íhlutun. Það þyrfti jafnvel að skoða áfallasögu hjá nemendum; af hverju er þetta að gerast?“
Soffía kveðst vera hugsi yfir þróuninni.
„Við þurfum, bara sem samfélag, að setjast niður og taka umræðuna um hvernig menningu við viljum hafa í okkar skólum. Viljum við hafa ofbeldismenningu? Skólastjórnendur sögðust finna fyrir slíkri neikvæðri menningu. Við þurfum að vinna meira með aga. Við þurfum að setja okkur skýrari ramma í þessum málum af því að ofbeldi er að færast neðar. Leikskólakennarar og leikskólastjórar tala um að þeir séu farnir að skynja ofbeldi hjá elstu hópunum.“
Nú verði að huga að öryggistilfinningu kennara og grípa til aðgerða til að vernda stéttina.
„Það er ekkert eðlilegt að kennarar í dag séu orðnir öryrkjar út af ofbeldi nemenda og það hrynja inn dæmin. Ég veit um mörg dæmi um kennara sem eru óstarfhæfir í dag út af ofbeldi nemenda.“