„Stemning í hópnum er mjög góð, við erum orðin ótrúlega spennt fyrir fyrstu tónleikunum okkar í Reykjavík. Það verður gaman að flytja efni sem enginn hefur heyrt og svo að setja saman nýjan anda í nokkrar ábreiður af lögum,“ segir Beta í samtali við blaðamann.
Systkinin Sigga, Beta, Elín og Eyþór mynda hljómsveitina Systur sem tók eftirminnilega þátt fyrir Íslands hönd í Eurovision í vor með laginu Með hækkandi sól sem er samið af Lay Low. Það verður fleira tónlistarfólk tengt Eurovision á tónleikunum þar sem Lay Low kemur fram ásamt bakraddasöngvörunum Zöe og Gísla Gunnari sem voru með Systrum í Torino. Þau munu auk þess taka lag saman eftir Zöe og Gísli spilar á gítar en Kiddi Snær verður á trommum.
Maro tók þátt fyrir hönd Portúgal með lagið Saudade, Saudade. Beta segir þau strax hafa myndað sterka tengingu við Maro og út frá því hafi hún ákveðið að koma í heimsókn.
„Það stóð í raun og veru ekkert til að hún kæmi að spila heldur bara að hún kæmi að heimsækja okkur, því að við mynduðum bara þannig tengingu að við vissum að þetta byrjunin á nýjum vinskap. Það er bara plús að hún sé að koma og spila nokkur lög fyrir okkur í Hörpu líka.“
Eftir tónleikana ætla þær svo að heimsækja fallegustu staði Íslands með Maro, slaka á saman og njóta.
Tilhlökkun fyrir tónleikana er mikil í hópnum.
„Skemmtilegast við að koma svona fram er þegar það myndast einhver tenging af sviðinu við áhorfendur og allir fara saman í ferðalag. Tilfinningin sem fylgir því þegar maður tjáir sig djúpt og það hvernig þér líður eftir á getur farið svolítið eftir því hvern þú varst að tjá þig við.
Þess vegna er extra gaman að vera með eigin tónleika, því þá veit maður að fólk er komið til að hlusta.“
Systkinin eru náin og notast alltaf við öfluga rútínu rétt fyrir gigg.
„Við tökum smá kærleikshring, þökkum fyrir hvort annað og biðjum um að fá að gera okkar besta,“ segir Beta að lokum. Nánari upplýsingar um tónleikana má finna hér.