Sjá má dæmi um þessar aðgerðir í innslaginu hér að ofan ásamt því sem rætt er við Vilhjálm Þorsteinsson, stofnanda Miðeindar.
Vilhjálmur segir að raddgreiningartæknin sé að verða sífellt betri, en að mönnum sé eðlislægt að nota tækni þar sem hægt er að tala og fá svör. „Þannig að ég held að þetta muni gerast smám saman,“ segir Vilhjálmur.

Smáforritið Embla hefur þegar sýnt íslenskum notendum hvers það er megnugt og þar er hægt að spyrja út í ýmislegt gagnlegt, á íslensku. En eins sniðug og Embla er, felst starf Miðeindar ekki síður í að búa til grunntækni sem síðan má afhenda stórfyrirtækjunum; Apple, Google, Facebook; sem svo vonandi byggja ofan á hann til að bjóða upp á íslensku í sínum tækjum.
„Áhrif tækninnar eru geysilega mikil og eiga bara eftir að fara vaxandi með tilkomu gervigreindar. Við þurfum að passa okkur að íslenskan sé þarna og mæti börnunum okkar og okkur sjálfum þar sem við viljum vera; til dæmis í samskiptum við spjaldtölvurnar, símana okkar og tölvurnar sem við erum með á skrifstofunum,“ segir Vilhjálmur.
Máltækniáætlun stjórnvalda frá 2018 til 2022 er nú lokið og óvíst hvert framhaldið verður. Vilhjálmur teldi æskilegast að halda áfram á sömu braut nema með aukinni áherslu á gervigreind og að ýta tækninni út til atvinnulífs og almennings.