Erlent

Trump sagður hafa látið færa skjölin eftir að honum var stefnt

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hafði með sér aragrúa skjala úr Hvíta húsinu sem eru eign alríkisstjórnarinnar. Á meðal þeirra voru háleynileg ríkisleyndarmál, þar á meðal um kjarnorkugetu erlends ríkis.
Trump hafði með sér aragrúa skjala úr Hvíta húsinu sem eru eign alríkisstjórnarinnar. Á meðal þeirra voru háleynileg ríkisleyndarmál, þar á meðal um kjarnorkugetu erlends ríkis. AP/Matt York

Starfsmaður Donalds Trumps er sagður hafa tjáð alríkislögreglunni að fyrrverandi forsetinn hafi gefið skipanir um að færa kassa með skjölum sem hann hafði með sér úr Hvíta húsinu eftir að honum hafði verið stefnt til að skila þeim. Alríkislögreglan gerði síðar húsleit hjá Trump til að endurheimta skjölin.

Þegar Trump yfirgaf Hvíta húsið í fyrra hafði hann með sér kassa fulla af skjölum sem tilheyrðu forsetaembættinu, þar á meðal nokkurn fjölda háleynilegra gagna um þjóðaröryggismál. Öll áttu skjölin að fara til þjóðskjalasafns Bandaríkjanna til varðveislu en í staðinn enduðu þau inni í skáp í Mar-a-Lago, heimili og fyrirtæki Trumps á Flórída.

Fulltrúar alríkislögreglunnar FBI gerðu húsleit þar í ágúst og höfðu með sér skjölin. Sú leit kom í kjölfar ítrekaðra tilrauna yfirvalda til þess að fá Trump til að skila skjölunum, meðal annars með því að stefna honum til að afhenda þau. Sakamálarannsókn stendur yfir á málinu.

Nú segir Washington Post að starfsmaður Trump hafi sagt rannsakendum FBI að hann hefði skipað fólki að færa skjölin í íbúð hans í Mar-a-Lago eftir að stefnan barst ráðgjöfum hans. Sú frásögn er sögð eiga sér stoð í öðrum gögnum málsins, þar á meðal upptökum öryggismyndavéla sem sýndu fólk bera kassa.

Starfsmaðurinn á upphaflega að hafa neitað því að meðhöndlað viðkvæm skjöl eða kassa þar sem þau kynni að vera finna. Þegar önnur sönnunargögn voru síðar lögð fyrir hann kom annað hljóð í strokkinn. Lýsti hann þá hvernig hann hefði tekið þátt í að bera kassana að kröfu Trumps.

Reyndu að endurheimta skjölin með góðu í fleiri mánuði

Fjöldi vitna í málinu hafa borið að þau hafi reynt að fá Trump til að vera samvinnuþýðan við þjóðskjalasafnið og dómsmálaráðuneytið eftir að það skarst í leikinn til þess að freista þess að endurheimta skjölin. Trump lét sér það mjálm sem vind um eyru þjóta.

„Ég á þessi skjöl,“ á Trump að hafa sagt við ráðgjafa sinn.

Eftir fleiri mánuði af því að þjóðskjalasafnið reyndi að fá Trump til að skila skjölunum sendi hann fimmtán kassa af gögnum til baka í janúar. Í þeim reyndust vera 184 skjöl sem voru merkt sem leynileg, þar á meðal 25 háleynileg.

Eftir að honum barst stefna um skjölin afhentu lögmenn Trump 38 leyniskjöl, þar á meðal sautján sem voru merkt háleynileg, í júní. Héldu þeir því fram að ítarleg leit hefði verið gerð að leyniskjölum á Mar-a-Lago. Áður hefur verið sagt frá því að Trump hafi viljað að lögmennirnir fullyrtu að hann hefði þegar skilað öllum skjölunum en að það hafi þeir ekki viljað gera af ótta við að það væri ekki sannleikanum samkvæmt.

Þegar húsleitin var svo gerð í ágúst komu í ljós 103 leyniskjöl til viðbótar, þar á meðal átján háleynileg skjöl. Í einu þeirra voru meðal annars upplýsingar um hernaðargetu erlends ríkis, þar á meðal kjarnorkuvopnaforða þess.

Lögmenn Trump reyna nú að tefja sakamálarannsóknina vegna skjalanna fyrir dómstólum. Trump sjálfur hefur borið fyrir afsakanir af ýmsu tagi. Hann hafi í raun aflétt leynd af leyniskjölunum, þrátt fyrir að engin gögn hafi komið fram sem styðji það, og að hann hafi hvað sem öðru líður rétt á að halda skjölunum. Þá hefur hann sakað fulltrúa FBI um að koma fyrir sönnunargögnum við húsleitina.


Tengdar fréttir

Telur forseta geta aflétt leynd með huganum einum

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, réttlætti vörslu sína á aragrúa leyniskjala með því að forseti gæti aflétt leynd af gögnum með því einu að hugsa um það í sjónvarpsviðtali í gær. Þá kallaði hann málaferli gegn honum í New York pólitískar nornaveiðar.

Neita að reyna að sanna hvort Trump hafi svipt leynd af gögnunum

Alríkisdómari sem fenginn var til að fara yfir opinber og leynileg gögn sem starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) tóku af Donald Trump, fyrrverandi forseta, í ágúst þrýsti á dómara Trumps í dómsal í dag. Hann vildi að þeir færðu sannanir fyrir því að Trump hefði svipt leynd af gögnum sem hann tók með sér úr Hvíta húsinu og hvaða gögn um væri að ræða.

Fundu leyni­gögn um kjarn­orku­vopn á heimili Trumps

Eitt af þeim skjölum sem fannst við húsleit bandarísku alríkislögreglunnar FBI á heimili Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta í Mar-a-Lago á Flórída, geymdi háleynilegar upplýsingar um kjarnorkuvopn erlends ríkis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×