Fótbolti

Zlatan-styttan sem missti bæði nefið og fæturna verður endurreist

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Styttan af Zlatan Ibrahimovic í Malmö eftir að hún missti nefið.
Styttan af Zlatan Ibrahimovic í Malmö eftir að hún missti nefið. EPA-EFE/JOHAN NILSSON

Óhætt er að segja að styttan af sænska knattspyrnumanninum Zlatan Ibrahimović í Malmö hafi mátt þola mikið á stuttum líftíma sínum. Borgarstjórn Malmö er samt ekki tilbúin að gefast upp að vera með styttu af fótboltahetju borgarinnar.

Bronsstyttan af Zlatan Ibrahimović var ítrekað skotspónn skemmdarvarga eftir að sænska knattspyrnustjarnan keypti hlut í félaginu Hammarby í Stokkhólmi. Stuðningsmenn Malmö þóttu það mikil svik að ganga inn í félag erkifjendanna.

Styttan var á endanum skorin niður en nú á að reisa hana enn á ný. Sænska blaðið Sydsvenskan segir að borgarstjórnin í Malmö hafi samþykkt að setja til hliðar 350 þúsund sænskar krónur til að laga þessa 2,7 metra háu styttu. Það eru fjórar og hálf milljón í íslenskum krónum.

Styttan var fyrst sett upp fyrir þremur árum eða 8. október 2019. Hún var í framhaldinu spreyjuð, nefið skorið af og loks felld með því að saga fæturna í sundur.

Það er ekki ljóst hvar styttan fari upp en það er ljóst að öryggisgæslan verður hert til muna.

Zlatan tók virkan þátt í hönnun styttunnar en hann sat fyrir hjá Linde sem bjó til styttuna.

Zlatan Ibrahimović hóf feril sinn í Malmö áður en hann færði sig yfir til Ajax og svo milli margra af stærstu félaga Evrópu. Hann er orðinn 41 árs gamall en er enn að spila með AC Milan þótt að hann hafi glímt mikið við meiðsli síðustu misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×