Lífið

Afturelding hægði á umferð í Ártúnsbrekku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stórleikarinn Ingvar E. Sigurðsson grafalvarlegur í hlutverki handboltaþjálfara.
Stórleikarinn Ingvar E. Sigurðsson grafalvarlegur í hlutverki handboltaþjálfara.

Tökur á atriðum fyrir sjónvarpsþættina Aftureldingu fóru fram á Vesturlandsvegi í morgun. Leikstjórinn segir tökur hafa gengið vel.

Þættirnir gerast í handboltaheiminum á Íslandi þar sem Ingvar E. Sigurðsson er í hlutverki þjálfara kvennaliðs Aftureldingar í handbolta. Aðstoðarmaður hans er leikinn af Sverri Þór Sverrissyni, Sveppa.

Fram kom í tilkynningu frá Vegagerðinni í morgun að ökumenn í Ártúnsbrekku ættu að fara varlega. Frá 9:30 og fram yfir hádegi yrðu bílar á ferð í brekkunni sem myndu aka vel undir hámarkshraða. Kvikmyndatökur voru nefndar í því samhengi.

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson er leikstjóri þáttanna ásamt þeim Elsu Maríu Jakobsdóttur og Göggu Jóns. Hafsteinn skrifaði handritið með Mosfellingnum Dóra DNA, Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, Jörundi Ragnarssyni og Katrínu Björgvinsdóttur. Hann segir tökur í Ártúnsbrekku hafa gengið mjög vel í morgun.

Hafsteinn Gunnar Sigurðsson leikstýrir og skrifar handritið.Vísir/Getty

Tökuliðið var búið að færa sig upp að Olís í Mosfellsbæ þegar blaðamaður náði af honum tali rétt fyrir klukkan tólf. Ökumenn ættu því að geta hætt að hafa áhyggjur af bílum í hægakstri á Vesturlandsvegi.

„Það er enginn í hættu,“ segir Hafsteinn Gunnar á léttum nótum og var svo rokin í áframhaldandi tökur.

Auk Ingvars og Sveppa fara Svandís Dóra Einarsdóttir, Saga Garðarsdóttir og Vala Kristín Eiríksdóttir með stór hlutverk í þáttunum sem á að frumsýna á RÚV um páskana.

Framleiðendur eru Skúli Malmquist Þórir Snær Sigurjónsson hjá Zik Zak. Stiklu úr þáttunum má sjá að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.