Erlent

Jeremy Hunt skipaður nýr fjár­mála­ráð­herra

Atli Ísleifsson skrifar
Jeremy Hunt hefur átt sæti á breska þinginu frá árinu 2005.
Jeremy Hunt hefur átt sæti á breska þinginu frá árinu 2005. Getty

Breski þingmaðurinn Jeremy Hunt, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og utanríkisráðherra, hefur verið skipaður nýr fjármálaráðherra í ríkisstjórn forsætisráðherrans Liz Truss.

Hunt tekur við stöðunni af Kwasi Kwarteng sem var látinn fara í morgun. Hunt verður fjórði fjármálaráðherra Bretlands á þessu ári.

Greint var frá skipun Hunt á samfélagsmiðlum embættis forsætisráðherrans í morgun.

Hinn 55 ára Hunt hefur átt sæti á breska þinginu frá 2005. Hann var ráðherra málefna menninga og Ólympíuleikanna í London á árunum 2010 til 2012, heilbrigðisráðherra á árunum 2012 til 2018 og utanríkisráðherra 2018 til 2019.

Bæði Kwarteng og Truss hafa sætt mikilli gagnrýni síðustu dagana vegna fjármálafrumvarps síns þar sem mestu skattalækkanirnar í fimmtíu ár og gríðarlegar lántökur voru boðaðar. 

Á sama tíma glíma Bretar við mikla efnahagskreppu, hækkandi vexti og mikla verðbólgu. Frumvarpið hefur valdið gríðarlegum titringi á fjármála- og húsnæðismarkaði í Bretlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×