Bíó og sjónvarp

Hvala­skoðunar­skúr sem hefur ekkert með hvala­skoðun að gera

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skúrinn var byggður á höfninni.
Skúrinn var byggður á höfninni. Vísir/Vilhelm

Búið er að koma fyrir skúr sem við fyrstu lítur út fyrir að eiga að hýsa hvalaskoðunarfyrirtæki á bryggju við Reykjavíkurhöfn. Skúrinn er þó ekki fyrir ferðamenn heldur er leikmynd fyrir íslenska sjónvarpsþáttaröð sem kemur út á næsta ári. 

Skúrinn er vel merktur og á honum stendur „Whale watching tours“. Þá er sagt að fyrirtækið sem nýtir sér skúrinn hafi verið stofnað árið 1998 og sé opið milli klukkan níu á morgnana til klukkan sex á kvöldin. 

Það er framleiðslufyrirtækið Polarama sem ber ábyrgð á skúrnum en hann verður notaður við tökur á íslensku sjónvarpsþáttaröðinni Heima er best sem kemur út á næstunni. Tinna Hrafnsdóttir er leikstjóri þáttanna en hún ræddi þá nýlega í viðtali við Einkalífið hér á Vísi. 

Í samtali við fréttastofu segir Kidda Rokk, einn eigenda Polarama sem er aðalframleiðandi þáttanna, að skúrinn sé einn af lykiltökustöðum þáttanna. 

„Sögusvið þáttanna er að miklu leiti til í hvalaskoðunarfyrirtæki. Til að gera söguna og sögusviðið trúverðugt þá nýttum við til kvikmyndatökunnar útlit leikmyndarinnar að utanverðu en leikum líka inni í leikmyndinni. Með þessu gátum við stjórnað tæknilegum þáttum betur og einnig hannað leikmyndina á þann hátt sem við vildum sýna áhorfendum. Þetta er í rauninni eins og lítill sumarbústaður sem við byggðum niðri á bryggju,“ segir Kidda.

Til þess að passa að skúrinn hverfi ekki út á haf í íslenskri veðráttu þurfti að notast við áhugaverða aðferð.

„Við notum sömu aðferðarfræði í uppsetningunni á þessu húsi og þegar við erum að byggja leikmyndir uppi á jöklum eða hálendi. Í staðinn fyrir að steypa staura, sem er ekki hægt á bryggjunni, þá eru undirstöður hússins mjög þungar ballestar,“ segir Kidda.

Tökur á þáttunum eru hafnar og munu halda áfram í haust. Ekki er komin nákvæm tímasetning á hvenær fólk getur horft á þættina. Þeir verða sýndir á Sjónvarpi Símans.


Tengdar fréttir

Saga af átökum fjölskyldu úr íslenskum samtíma

Tökur eru að hefjast á sjónvarpsþáttaseríunni Heima er best. Heima er best er karakterdrifin sex þátta sería frá Tinnu Hrafnsdóttur leikkonu og leikstjóra. Þættirnir fara í sýningu á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.