Innlent

Staða VR innan ASÍ óbreytt í bili

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ragnar Þór hefur boðið sig fram til forseta ASÍ.
Ragnar Þór hefur boðið sig fram til forseta ASÍ. Vísir/vilhelm

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir stöðu félagsins innan ASÍ óbreytta og ekki tímabært að gera breytingar þar á í bili þar sem þingi ASÍ hafi verið frestað. Hins vegar verði málefni ASÍ rædd á vettvangi VR eftir að kjarasamningar hafa verið undirritaðir.

Frá þessu greinir Morgunblaðið og vitnar í orðsendingu Ragnars Þórs til trúnaðarráðs VR.

Boðað hefur verið til stjórnarfundar hjá VR í dag og á morgun stendur til að funda með Samtökum atvinnulífsins.

Morgunblaðið hefur eftir formanninum að öll áhersla sé nú lögð á kjarasamninga en þar sé ASÍ ekki ætlað neitt hlutverk. Hins vegar hafi engin bandalög verið mynduð á þessu stigi málsins, líkt og kom til tals eftir að formenn VR, Eflingar og Starfsgreinasambandsins gengu út af þingi ASÍ á dögunum.

Að því er fram kemur í Morgunblaðinu er nokkur kurr innan VR vegna þróunar mála á þinginu og haft er eftir heimildarmönnum að sumum þyki fráleitt að leggja félagið að veði bara af því að Ragnar Þór hefði ákveðið að hætta við að sækjast eftir forsetaembættinu hjá ASÍ. 

Þá eigi VR og Efling tæpast samleið í kjarasamningsviðræðum þar sem hagsmunir félagsmanna séu of ólíkir.

Morgunblaðið segir einnig að daginn eftir að Ragnar Þór gekk út af þinginu hafi átta stjórnarmenn og nær 50 fulltrúar VR mætt á þingið, áður en því var svo frestað. Þá sé hljóðið í trúnaðaráði VR þungt og mörgum þótt Ragnar Þór ganga lengra en hann hafði umboð til.

Trúnaðarráðið mun funda í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×