CNN ræddi við einn lækni í Íran sem starfar ekki á bráðamóttöku heldur er almennur læknir á spítala í landinu. Hann laumar sér oft á bráðamóttökuna til þess að aðstoða þá sem hafa slasast í mótmælum þar í landi eftir að hin 22 ára Mahsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar þar í landi. Hún var handtekin fyrir að notast ekki við slæðu á almannafæri.
Sár þeirra sem slasast í mótmælunum eru oftar en ekki nokkuð augljós. Skotsár eftir gúmmíkúlur úr byssum lögreglunnar og marblettir eftir kylfur lögreglumanna.
Læknirinn sem CNN ræddi við neitar að aðstoða lögreglu við að bera kennsl á þá sem þeir vilja hneppa í varðhald. Með því er hann að leggja líf sitt að veði enda gæti lögreglan allt eins ákveðið að hann sé að fremja glæp með því að aðstoða fólkið.
Hann drífur sig alltaf í því að hylja sár þeirra sem koma á bráðamóttökuna til að koma í veg fyrir að lögreglumennirnir geti auðveldlega séð hverjir eru mótmælendur.
Þegar læknirinn er ekki á vakt þá er hann sjálfur viðstaddur á mótmælunum til þess að veita fólki skyndihjálp, jafnvel þó að hans eigið líf sé í hættu með því að mæta. Þegar hann er búinn að hlúa að fólkinu á staðnum sendir hann flesta þó á spítalann þar sem kollegar hans taka við þeim.
Mikill munur er á tölum látinna eftir því hver greinir frá. Íranskir ríkismiðlar segja sextíu manns hafa látist í tengslum við mótmælin en ýmsir fjölmiðlar heimsins segja töluna vera nær tvö hundruð. Ljóst er að ekkert lát er á mótmælunum.