Innlent

Tekist á um upp­rekstrar­fé­lags­skyldu í Borgar­byggð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Guðveig segir vafalaust skiptar skoðanir á því hvort hægt sé að skikka landeigendur í upprekstrafélög.
Guðveig segir vafalaust skiptar skoðanir á því hvort hægt sé að skikka landeigendur í upprekstrafélög. Vísir/Vilhelm

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur hafnað ósk jarðeigenda að Skarðshömrum um úrsögn úr upprekstrarfélagi.

Fréttablaðið greinir frá og hefur eftir Guðveigu Lind Eyglóardóttur, forseta sveitarstjórnar, að ekki hafi verið hægt að veita heimild fyrir úrsögn þar sem það yrði þá fordæmisgefandi, ekki bara í Borgarbyggð heldur á öllu landinu.

Hörður Hermannsson á Skarðshömrum segir engan sauðfjárbúskap á bænum og ábúendur telji sig ekki þurfa að eiga að borga inn í félag til að halda uppi sauðfjárbúskap hjá öðrum. 

Samkvæmt frétt Fréttablaðsins hefur sauðfé fækkað um helming á síðustu 40 árum en fjöldi jarðeigenda sem séu ekki í sauðfjárbúskap sé enn skikkaður til að vera í upprekstrarfélögum, sem þeir þurfa að greiða í og í sumum tilvikum fara í göngur.

Borgarbyggð segir það varða almannahagsmuni að halda öllum jörðum innan upprekstrarfélaga en Hörður segir sauðfjárrækt ekki varða almannahagsmuni. Hann segir málinu ekki lokið. 

Guðveig viðurkennir að ekkert lögfræðiálit liggi að baki ákvörðun sveitarstjórnarinnar en segist vona að málið verði ekki ásteytingarsteinn milli bænda í sauðfjárrækt og annarra landeigenda.

„Það hlýtur að vera hægt að finna flöt á samstarfi til lengri tíma,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×