Greint var frá því á Vísi í gærkvöldi að þrettán hross í Borgarfirði hafi verið aflífuð vegna ástands þeirra. Hrossin voru verulega aflögð og nokkur þeirra gengin úr hárum.
Vísir hefur fjallað um þessi hross í sumar og haust en íbúar í Borgarfirði segjast ítrekað hafa kvartað undan eigendum hrossanna. Þeir sjái ekki nægilega vel um þau og önnur dýr sem þau eiga.
MAST hefur fylgst með hrossunum síðan undir lok ágúst og hafði stofnunin gripið til aðgerða. Eigandinn þurfti að hleypa hrossunum út og fóðra þau samhliða beitinni.
Í tilkynningu á vef MAST segir að við eftirlit í gær hafi kom í ljós að fóðrun hrossanna samhliða beit hafi ekki verið sinnt sem skildi. Á mánudaginn var því eigandanum send tilkynning um vörslusviptingu sem var framfylgt í gær.
Þegar hrossin voru skoðuð mat MAST það sem svo að holdastig þrettán þeirra væri svo alvarlegt að aðgerðir þyldu ekki bið. Að teknu tilliti til árstíma var tekin sú ákvörðun að senda tólf þeirra í sláturhús og aflífa eitt þeirra á staðnum.
Holdastig annarra hrossa reyndist vera ásættanlegt og var því skilað aftur til eigandans. Tíu þeirra eru þó metin í viðkvæmu ástandi og skulu njóta sérstakrar umhirðu. Málið verður enn til meðferðar hjá MAST og verður kröfum um úrbætur fylgt eftir.