Parið hittist fyrst fyrir tíu árum síðan á tökustað Hannah Montana, þar sem Billy lék á móti dóttur sinni Miley Cyrus. Þá hefur Firerose sagt að hún hafi síðan þá álitið Billy sem lærifaðir og félaga.
Á síðasta ári má segja að Firerose og Billy hafi endurnýjað kynnin fyrir alvöru þegar þau gáfu saman út lagið New Day. Það var þó ekki fyrr en í ágúst á þessu ári sem parið tilkynnti um ástarsamband sitt á Instagram.
Sjá: Faðir Miley Cyrus hefur fundið ástina á ný
Miklar getgátur hafa verið uppi um það hvort parið hafi trúlofað sig, eftir að sást glitta í demantshring á vinstri baugfingri Firerose fyrir um mánuði síðan.
Það var svo í gær sem parið birti mynd af sér saman þar sem má segja að demantshringurinn hafi verið í aðalhlutverki. Hamingjuóskum hefur rignt yfir parið í athugasemdum undir myndinni. Þau hafa þó hvorugt staðfest trúlofunina, en ein mynd segir oft meira en þúsund orð.
Firerose er frá Ástralíu og hefur skapað sér nafn sem söngkona á síðustu árum. Billy Ray er þekktur í kántrýheiminum en hann er þekktastur fyrir lögin Achy Breaky Heart og Old Town Road.
Töluverður aldursmunur er á parinu, en Billy Ray er sextíu og eins árs gamall. Nákvæmur aldur Firerose er ókunnur en hún er talin vera á þrítugsaldri. Þess má geta að Miley Cyrus, dóttir Billy, verður þrítug á árinu.
Billy var áður giftur Tish Cyrus. Tish sótti um skilnað í apríl á þessu ári eftir tuttugu og átta ára hjónaband. Þá höfðu þau þó verið skilin að borði og sæng í tvö ár.