Erlent

Ríkisstjórn Truss riðar til falls

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Forsætisráðherrann átti í vök að verjast þegar hún svaraði spurningum þingmanna í gær.
Forsætisráðherrann átti í vök að verjast þegar hún svaraði spurningum þingmanna í gær. AP

Algjör glundroði ríkir á stjórnarheimilinu í Bretlandi og er ríkisstjórn Liz Truss sögð hanga á bláþræði. Innanríkisráðherrann Suella Braverman sagði af sér í gær og var harðlega gagnrýnin á forsætisráðherrann í afsagnarbréfi sínu.

Þá bárust fregnir af því í gær að þingmenn Íhaldsflokksins hefðu verið beittir líkamlegum þvingunum til að taka þátt í atkvæðagreiðslu um vökvabrot, eða „fracking“. 

Vitni hafa lýst því hvernig fjöldi þingmanna Íhaldsflokksins umkringdu flokksbræður sína sem voru óvissir um hvernig þeir ætluðu að greiða atkvæði og höfðu frammi ógnandi tilburði.

Talsmönnum Íhaldsflokksins hefur ekki borið saman um hvort atkvæðagreiðslan hafi í raun verið úrslitaatkvæðagreiðsla um traust gagnvart forsætisráðherranum en miðlar greindu frá því í gær að formaður og varaformaður þingflokksins hefðu sagt af sér.

Svo virðist sem þeim hafi snúist hugur, þar sem fregnirnar voru dregnar til baka í morgun.

Hver þingmaður Íhaldsflokksins á fætur öðrum hefur tjáð sig við fjölmiðla og sagt forsætisráðherranum ekki við bjargandi. Sumir hafa gengið svo langt að segja kosningar óumflýjanlegar eins og komið er, jafnvel þótt kannanir sýni mikla yfirburði Verkamannaflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×