Heimaleikur Leiknis og Keflavíkur á laugardaginn fer ekki fram á Domusnova vellinum í Efra Breiðholti heldur hefur hann verið færður á Würth völlinn í Árbæ sem heimavöllur Fylkis.
Það er komið langt fram í október og Domusnova völlurinn er grasvöllur en Würth völlurinn er gervigrasvöllur.
Leikurinn hefur einnig verið færður fram um einn klukkutíma og fer því fram klukkan 13.00 en ekki klukkan 14.00. Leikur ÍA og ÍBV fer einnig fram klukkan 13.00 en ekki klukkan 14.00.
Leiknismenn eru í mikilli fallhættu og falla úr Bestu deildinni takist þeim ekki að vinna leikinn á móti Keflavík.
Leiknir er fjórum stigum á eftir FH og með mun slakari markatölu. FH getur tryggt sér áframhaldandi sæti í deildinni með sigri á Fram á sunnudaginn sama hvernig fer hjá Leiknismönnum á móti Keflavík.
Leiknir fellur hins vegar takist liðinu ekki að vinna Keflvíkinga sólarhring áður. Þessi þrettándi og síðasti heimaleikur Leiknis á þessi ári gæti því orðið síðasti heimaleikur liðsins í Bestu deildinni í einhvern tíma.
Leiknismenn hafa náð í 12 af 21 stigi sínu í sumar á Domusnova vellinum. Þeir hafa náð að vinna tvo útileiki í sumar og það voru leikir í Garðabæ og upp á Akranesi.