Körfubolti

„Hefði frekar viljað að öll skotin hefðu farið ofan í“

Andri Már Eggertsson skrifar
Arnar Guðjónsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins
Arnar Guðjónsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Bára Dröfn

Stjarnan vann tólf stiga útisigur á ÍR í 3. umferð Subway deildar-karla. Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með sigurinn.

„ÍR hitti verr í seinni hálfleik, mér fannst við gera betur varnarlega og svo var veggur og velta vörnin okkar betri í seinni hálfleik,“ sagði Arnar Guðjónsson aðspurður hver væri munurinn á fyrri og seinni hálfleik. 

Heimamenn byrjuðu betur og voru með yfirhöndina í fyrri hálfleik. ÍR var fimm stigum yfir í hálfleik 46-41.

„Við gerðum 41 stig í fyrri hálfleik og mér fannst skotnýtingin fín en varnarleikurinn var ekki nógu góður. ÍR gerði vel mér finnst þeir vel þjálfaðir og ég er ótrúlega hrifinn af því sem Ísak Wíum er að gera. Ísak er góður þjálfari og hann er að gefa ungum leikmönnum tækifæri og það er gaman að sjá lið taka öðruvísi nálgún en öll önnur lið.“

Það var mikil barátta í Stjörnumönnum þar sem þeir tóku 63 fráköst og þar af 24 sóknarfráköst sem Arnar var ánægður með.

„Ég var ánægður með baráttuna en ég hefði frekar verið til í að mínir menn hefðu hitt þessum 24 skotum og við hefðum sleppt þessum sóknarfráköstum.“

Stjarnan kláraði leikinn í upphafi fjórða leikhluta með því að gera fyrstu þrettán stigin en þunnskipaðir ÍR-ingar fundu fyrir þreytu í fjórða leikhluta.

„Mér fannst við gera meira af því sama en þeir eru fámennir og voru orðnir þreyttir sem hafði áhrif og þeim manntaði fleiri leikmenn sem hjálpaði okkur,“ sagði Arnar Guðjónsson að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×