Fótbolti

Guðrún og stöllur sófameistarar eftir misstig Linköping

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar eru sænskir meistarar annað árið í röð.
Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar eru sænskir meistarar annað árið í röð. Twitter @fotbollskanal

Guðrún Arnardóttir, landsliðskona í fótbolta, og stöllur hennar í Rosengård eru sænskir meistarar eftir jafntefli Linköping við Kalmar í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Guðrún vinnur þar með titilinn annað árið í röð með félaginu.

Rosengård var með átta stiga forskot á Linköping fyrir leik kvöldsins þegar aðeins tvær umferðir voru eftir af deildinni. Linköping þurfti sigur til að minnka bilið í fimm stig, þegar sex stig voru í pottinum.

Linköping komst 2-1 yfir gegn Kalmar á 55. mínútu í kvöld en það var hin bandaríska Alyssa Walker sem tryggði Kalmar stig með jöfnunarmarki stundarfjórðungi fyrir leikslok og tryggðu Rosengård þannig titilinn á sama tíma.

Rosengård er með 60 stig á toppi deildarinnar en bæði Linköping og Kalmar eru með 53 þegar aðeins tveir leikir eru eftir og geta því mest fengið 59 stig. Rosengård er því meistari, annað árið í röð.

Þetta er jafnframt þriðji titill Rosengård á fjórum árum en alls hefur liðið orðið sænskur meistari 13 sinnum, þar af átta sinnum frá 2010.

Ekkert lið hefur unnið deildina oftar, en næst á eftir kemur Umeå með sjö titla.

Guðrún er að vinna annan titilinn með félaginu en hún var einnig hluti af liðinu sem vann sænska meistaratitilinn á síðustu leiktíð. Hún gekk í raðir Rosengård frá Djurgården í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×