Tilkynning um tundurduflið barst Gæslunni frá skipstjóra íslensks togskips um hádegisbil í gær, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Gæslunnar var kölluð út og hélt til Siglufjarðar þangað sem skipið stefndi.
Héldu sérsveitarmenn svo á slöngubát til móts við skipið. Hífðu þeir djúpsprengjuna í bátinn og fór með í land á öðrum tímanum í nótt. Farið var með tundurduflið út á Siglunes þar sem því var eytt um hádegisbil í dag.
Landhelgisgæslan segist reglulega þurfa að eyða gömlum tundurduflum. Þó að þau séu um áttatíu ára gömul geta þau enn reynst stórhættuleg, sérstaklega vegna aldursins og mögulegrar tæringar.
Í sömu ferð á Siglufjörð eyddu sérsveitarmennirnir áratugagömlum hvellhettum fyrir dínamít sem slökkviliðsstjórinn í bænum lét vita af.
Aragrúi tundurdufla var lagður í hafið í síðari heimsstyrjöldinni, allt að 600-700 þúsund, að því er segir í grein á Vísindavefnum. Allt að þriðjungur þeirra var lagður í kringum Ísland. Sprengjurnar eru hannaðar til þess að springa við högg af hvaða tagi sem er. Þau voru oft lögð í höfnum, vogum og víkum til þess að loka siglingaleiðum.