Sport

Anníe Mist og Katrín Tanja hjálpuðu íslenska Evrópumeistaranum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Fanndal Sturludóttir hefur bætt sig mikið á síðustu misserum.
Eygló Fanndal Sturludóttir hefur bætt sig mikið á síðustu misserum. Youtube

Eygló Fanndal Sturludóttir varð á dögunum fyrsti íslenski Evrópumeistarinn í ólympískum lyftingum þegar hún vann gull á EM undir 23 ára í Albaníu.

Eygló, sem er 21 árs læknanemi, vann þar öruggan sigur í mínus 71 kíló flokknum en árangur hennar vakti ekki aðeins athygli hér heima heldur einnig í erlendum miðlum.

Eygló var þannig í viðtali hjá insidethegames og þar sagði hún frá því að hún hefði fengið hjálp tveggja heimsmeistara á æfingum sínum.

CrossFit konurnar Anníe Mist Þórisdóttir og Katrín Tanja Davíðsdóttir hafa báðar unnið heimsleikana tvisvar sinnum og komist oft á verðlaunapall á heimsmeistaramóti CrossFit íþróttarinnar.

„Ég held að Anníe sé meðeigandi í líkamsræktarstöðinni þar sem ég æfi. Hún er alltaf að æfa þarna og Katrín æfir þar líka þegar hún er á Íslandi,“ sagði Eygló Fanndal Sturludóttir.

„Þær hafa báðar hjálpað mér mikið,“ sagði Eygló.

Anníe Mist og Katrín Tanja hafa ekki bara keppt í CrossFit því þær kepptu báðar í heimsmeistarakeppninni í ólympískum lyftingum í Houston árið 2015 þar sem þær enduðu í 33. og 37. sæti í 69 kílóa flokki.

Eygló hefur trú á uppgangi íþróttarinnar á Íslandi.

„Ég held að lyftingar eigi eftir að vera stærri hér á landi. Það verður sýnilegra hvar þú getur byrjað í íþróttinni og hvernig þú finnur þér félag og þjálfara,“ sagði Eygló.

„Við erum með gott samfélag á Íslandi, góðar keppnir og skemmtun okkur vel saman,“ sagði Eygló.

Eygló var í fimleikum á sínum tíma en fann sig betur í lyftingarsalnum.

„Ég er hrifnari af ólympískum lyftingum, þær passa mér betur,“ sagði Eygló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×