Skoðun

Þurfum við föstu­daga?

Tómas Ragnarz skrifar

Í áratugi höfum við skoðað leiðir til að auðvelda föstudaga á skrifstofunni; hvort sem það eru morgunverðarhlaðborð, bjór í hádeginu, hversdagslegri klæðnaður, styttri vinnudagur eða annað sprell. Því er kannski ekki nema von að sífellt fleiri séu farin að spyrja sig hvort yfirleitt sé þörf á föstudögum.

Fyrirtæki og stofnanir eru í það minnsta farin að draga mjög úr vægi föstudaga í vinnuvikunni. Starfsfólk hefur fengið aukið val um hvernig það vill haga starfi sínu í lok vinnuvikunnar, mörg vinna meira heima á föstudögum og víða hefur fjögurra daga vinnuvika verið við lýði án formlegrar ákvörðunar um það. Fjölmargir starfsmenn eru jafnvel farnir að dreifa frídögunum sínum þannig að þeir geti tekið sér frí á hverjum einasta föstudegi í þrjá mánuði. Föstudagar eru enda kjörnir frídagar því við elskum öll lengri helgi.

Heimsfaraldurinn flýtti dauða föstudagsins á skrifstofunni eftir því sem fleiri tömdu sér blandað vinnufyrirkomulag. Til hvers að gera sér ferð í vinnuna þegar þú getur sinnt vinnunni þinni heima hjá þér, á næsta kaffihúsi eða í fjarvinnuaðstöðu í næsta nágrenni? Þróun síðustu tveggja ára hefur breytt skilningi okkar á því hvar og hvernig vinnan skuli fara fram og hvað skilar sér í mestum afköstum. Því er auðvitað spurt: „Þurfum við föstudaga lengur?“

Rannsóknir styðja tóm skrifborð

Gögn Regus sýna að fyrirtæki á heimsvísu eru horfa upp á þriggja daga vinnuviku á skrifstofunni.

Í Bretlandi gefur úttekt Regus til kynnna að aðsókn á skrifstofuna er 23% meiri á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum en á mánudögum og föstudögum. Talsmaður Kastle Systems, sem þjónustar 2.600 byggingar víðs vegar um Bandaríkin, sagði í samtali við Washington Post að aðeins 30% starfsmanna hafi farið í vinnu á föstudögum í júní, minnst allra virka daga.

En hvaða máli skiptir þetta? Þurfa vinnuveitendur að hafa áhyggjur af því að skrifborðin séu tóm áður en vinnuvikunni lýkur formlega – eða gæti þetta hreinlega talist jákvætt?

Stutta svarið við spurningunni er að auðvitað eru skrifborð fólks ekki tóm. Fólk situr bara við fleiri mismunandi skrifborð; kannski er það með eitt heima hjá sér, annað á bókasafninu og það þriðja í sveigjanlegu vinnurými nálægt heimili sínu. Ef eitthvað er að marka rannsóknir þá er þetta jákvæð þróun. Aukinn sveigjanleiki er líklegri til að skila sér í afkastameiri og ánægðari starfsmönnum.

Í skýrslu Catalyst kom þannig í ljós að starfsmenn með aðgang að fjarvinnumöguleikum eru 63% líklegri til að segjast vera „nýstárlegir“ og 75% líklegri til að segjast taka „virkan þátt“ í starfi sínu. Þessar niðurstöður eiga sér stoð í rannsóknum Regus, sem leitt hafa í ljós að næstum þriðjungur svarenda (31%) sagðist telja að framleiðni sín hefði aukist með blendingsfyrirkomulagi. Föstudagar heima snúast því ekki um að fólk sé að skrópa í vinnuna, þvert á móti snúast þeir um að gera lífið auðveldara og vinna betur.

Föstudagsfundurinn klukkan 16:00 er ekki málið

Þetta er þó ekki óumdeilt. Til eru atvinnurekendur sem enn deila um það hvort föstudagur sé ómissandi vinnudagur eða dagurinn til að gefa starfsmönnum meira frelsi. Hinn litríki Mike Ashley hjá Frasers Group hefur að eigin sögn bannað starfsfólki að vinna heima hjá sér á föstudögum vegna þess að það bitni á afköstum þess. Og það eru alltaf þessar sögusagnir af stjórnendum sem skipuleggja endurtekna fundi klukkan 16:00 á föstudögum til að halda fólki í vinnunni að óþörfu.

Aftur á móti ákváðu fyrirtæki eins og Sonyað fara aðra leið. Á föstudögum á sumrin leyfðu þau „starfsmönnum að verja hálfum vinnudegi í að forgangsraða velferð sinni sjálfir.“

Sífellt fleiri fyrirtæki hafa þó gengið enn lengra, eins og Fintech-sprotafyrirtækið Bolt, og afskrifað föstudagsvinnuna með öllu og tekið upp fjögurra daga vinnuviku. Stofnandi Bolt, Ryan Breslow, sagði að breytingin „samræmdist breyttum vinnuaðferðum fólks“ og bætti við: „Vinnan mun fylla rýmið sem þú gefur henni. Ég er því að veðja á að við verðum mun duglegri frá mánudegi til fimmtudags.“

Föstudagar eru vissulega afslappaðri en aðrir dagar – í hvaða formi sem föstudagarnir eru – en það er augljóst að það er ekki valkostur fyrir öll fyrirtæki eða stofnanir að gefa hann upp á bátinn. Það sem er hins vegar augljóst er að starfsmenn elska sveigjanleika og skýra virðingu fyrir heimilislífi sínu og fjölskyldu. Föstudagur án þess að vera fastur í umferðinni, föstudagur heima, í slökun og með möguleika á að brjóta daginn upp eins og þú vilt. Þetta er einföld gjöf sem vinnuveitendur geta boðið starfsfólki sínu og sífellt fleiri eru farnir að gera.

Sveigjanleiki og sparnaður

Rannsóknir frá Global Workspace Analytics sýna að innleiðing blendingsvinnu og notkun sveigjanlegs skrifstofurýmis þýðir að fyrirtæki spara hefðbundinn fastan kostnað eins og leigu, hita og auka mannskap – sparnaður sem getur numið meira700 þúsund krónum á starfsmann á mánuði. Sveigjanleg kjör tæla einnig besta starfsfólkið til fyrirtækis þíns. 72% skrifstofustarfsmanna myndu kjósa langtímasveigjanleika umfram 10% launahækkun, samkvæmt tölfræðiRegus.

Staðreyndin er sú að fyrir meirihluta fólks sem nú þegar vinnur og hefur upplifað ávinninginn af blendingsvinnu er erfitt að fara aftur í gamla farið. Tilhugsunin um að þurfa að sitja við tiltekið skrifborð í sama hólfi í ákveðinn fjölda daga og klukkustunda hljómar forneskjulega og þreytt núna þegar við hugsum um það. Og hversu afkastamiklir eru þessir föstudagsfundir þegar fólk er þegar með hugann við samverustundirnar um helgina með sínu allra besta fólki?

Höfundur er eigandi og framkvæmdastjóri Regus á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×