Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú komu í opinbera heimsókn til Bratislava höfuðborgar Slóvakíu í gær í boði Zuzönu Caputová forseta landsins og lýkur heimsókninni í dag. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra er í fylgd forseta ásamt viðskiptasendinefnd.
Margir Íslendingar læra læknisfræði í Slóvakíu og fundaði forsetinn með hópi þeirra í morgun. Guðni segir heimsóknir sem þessar geta eflt jákvæð samskipti ríkjanna. Í gær hafi verið boðað til viðskiptaþings þar sem meðal annars var hefði verið staðfest samkomulag um samvinnu þjóðanna um nýtingu jarðhita í Slóvakíu.
„Hann má nýta hér víða. Í þeirri orkukrísu sem nú ríkir og vegna þess að við þurfum að nýta græna orku í enn ríkari mæli en áður liggur beint við að Slóvakar horfi niður á við og nýti sinn jarðhita. Þeir vilja þá nýta þekkingu okkar og reynslu í þeim efnum. Nú þegar er ljóst að heimsóknin hefur borið árangur að því leytinu til,“ segir Guðni.

Það vakti athygli fjölmiðla í Slóvakíu að forsetahjónin heimsóttu Tepláreň skemmtistaðinn í Bratislava en þar fyrir utan skaut nítján ára maður tvo unga samkynhneigða menn til bana og særði unga konu fyrir hálfum mánuði. Forsetahjónin lögðu blóm að morðstaðnum og funduðu síðan með fulltrúum félaga hinsegin fólks og ýmissa annarra mannréttindasamtaka.

Guðni segir Slóvakíu íhaldssama þjóð þegar komi að réttindum samkynhneigðra. Forseti landsins væri hins vegar ötull talsmaður umburðarlyndis og víðsýni og hafi sjálf vakið athygli landa sinna á viðburðinum og fundi íslensku forsetahjónanna með fulltrúum mannréttindasamtakanna.
Hvernig lýsti þetta fólk sem þið rædduð við aðstæðum ef þú berð það saman við það sem þú þekkir uppi á Íslandi?
„Það lifir í ótta. Sífelldum ótta um aðkast, ofbeldi, það lifir í sífelldum ótta um útskúfun heima fyrir. Vissulega er það svo heima á Íslandi að við getum gert ýmislegt betur. Sumt fólk talar um bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks og við sjáum teikn þess. En ég ætla samt að leyfa mér að halda því fram að heima getum við þó þakkað fyrir það sem hefur áunnist,“sagði Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
