Erlent

Njósnarinn í Tromsö sagður vera ofursti í GRU

Samúel Karl Ólason skrifar
Mikhail Valerievich Mikushin á mynd sem tekin var í Kanada árið 2015. Þá gekk hann undir nafninu José Giammaria sem hann gerði enn þegar hann var handtekinn í Noregi á dögunum.
Mikhail Valerievich Mikushin á mynd sem tekin var í Kanada árið 2015. Þá gekk hann undir nafninu José Giammaria sem hann gerði enn þegar hann var handtekinn í Noregi á dögunum.

Yfirvöld í Noregi hafa nafngreint rússneskan njósnara sem handtekinn var nýverið í Tromsö. Sá heitir Mikhail Valerievich Mikushin og er fæddur árið 1978 í Rússlandi. Hann er talinn vera ofursti í GRU, leyniþjónustu rússneska hersins.

Mikushin hefur verið ákærður fyrir njósnir en NRK hefur eftir embættismönnum að rannsóknin á hinum meintu njósnum hans sé ekki langt komin. Mikushin hefur verið úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald.

Njósnarinn meinti er sagður hafa þóst vera brasilískur fræðimaður og gengið undir dulnefninu José Assis Giammaria. Hann ku hafa starfað við háskólann í Tromsö og unnið þar við rannsóknir á Norðurslóðum og svokölluðum fjölþáttaógnum.

Sjá einnig: Telja sig hafa gripið rússneskan njósnara í Tromsö

Christo Grozev, frá rannsóknarsamtökunum Bellingcat, segist hafa staðfest niðurstöður Norðmanna. Bellingcat og samstarfsmenn þeirra hafi meðal annars komið höndum yfir mynd af ökuskírteini Mikushins.

Þá sýni gögn frá Rússlandi að hann hafi um tíma verið skráður til heimilis í heimavist skóla GRU. Þau gögn bendi til þess að Mikushin sé ofursti í leyniþjónustunni.

GRU sér að mestu um njósnir og annarskonar leynilegar aðgerðir Rússa á erlendri grundu. Leyniþjónustan FSB, sér um aðgerðir í Rússlandi og öðrum nærliggjandi ríkjum.

Útsendarar GRU hafa verið nokkuð umsvifamiklir í Evrópu á undanförnum árum. Það voru tveir GRU-liðar sem eitruðu fyrir Sergei Skripal og dóttur hans í Bretlandi um árið. Þá eru sömu menn sagðir hafa sprengt upp vopnageysmlu í Tékklandi fyrir nokkrum árum.

Sjá einnig: Ótrúleg slóð útsendara

Mikoshin er það sem kallað er „ólöglegur njósnari“. Slíkir njósnarar njóta ekki pólitískar verndar í skjóli þess að vinna í sendiráði. Þess í stað búa þeir til persónur og þurfa jafnvel að lifa öðru lífi en þeirra eigin til lengri tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×