Skoðun

Tímamót í tölfræði fyrir verslun og þjónustu

Sigrún Ösp Sigurjónsdóttir skrifar

Það er óumdeilt að góðar ákvarðanir eru teknar á grundvelli góðra upplýsinga og gagna er málefnið varða. Gagnadrifnar ákvarðanir geta til að mynda hjálpað fyrirtækjum að bæta frammistöðu, þróa nýjar vörur og þjónustu og auka samkeppnisforskot sitt.

Markmið Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) er að hafa allar upplýsingar og gögn er varða verslun og þjónustu aðgengilegar á einum stað. Það markmið verður að veruleika í dag þegar rannsóknasetrið opnar nýjan notendavef, Sarpinn. Tilkoma Sarpsins eru mikil tímamót fyrir hagaðila innlendrar verslunar og þjónustu.

Á Sarpinum má nálgast allar helstu tölfræðiupplýsingar, kortaveltugögn, vísitölur, rannsóknir og greiningar er varða verslun og þjónustu í landinu. Mælaborð verslunarinnar lítur dagsins ljós með tilkomu Sarpsins. Þar má einnig finna kortaveltusvæði með gögnum RSV um kortaveltu, bæði Íslendinga og erlendra ferðamanna og vísitölusvæði með hinum ýmsu vísitölum verslunar og þjónustu. Til að mynda vísitölu smásöluveltu, vísitölu hrávöruverðs og Netverslunarvísi RSV sem gefinn verður út í fyrsta sinn á árinu 2022. Sarpurinn verður í stöðugri þróun og munu spennandi nýjungar reglulega líta þar dagsins ljós.

Rannsóknasetrið á sér langa sögu en það var stofnað árið 2004. Að setrinu standa Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Verslunarmannafélag Reykjavíkur (VR), Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ), Bílgreinasambandið og Háskólinn á Bifröst. Rannsóknasetrið starfar með ýmsum aðilum auk þeirra sem standa að setrinu og aflar sértekna með áskriftarsölu að gögnum og greiningum og með verkefna vinnu fyrir fyrirtæki, einstaklinga, hagsmunasamtök og opinbera aðila. RSV er leiðandi aðili á Íslandi í rannsóknum og tölfræðivinnslu fyrir verslun og tengdar atvinnugreinar. Almennt felst starfsemi setursins í að fylgjast með þróun og breytingum er varða verslun og neysluhegðun og koma á framfæri upplýsingum því tengdu til stjórnvalda, fyrirtækja og almennings. RSV er óháður rannsóknaaðili sem leggur áherslu á akademískt sjálfstæði í allri starfsemi og gerir sér far um að fylgjast með nýjungum í verslun og þjónustu og vísbendingum um þróun þessara greina bæði hér heima og erlendis.

Rannsóknasetrið gegnir lykilhlutverki sem upplýsingaveita um vísitölur og aðra tölfræði sem stjórnendur í verslun og þjónustu þurfa á að halda við ákvarðanatöku í daglegri stjórnun og vegna stefnumótunar til lengri tíma. Með tilkomu Sarpsins geta stjórnendur nú tekið gagnadrifnar ákvarðanir á auðveldari hátt.

Höfundur er forstöðumaður Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV).




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×