Í oddvitaumræðum í borgarstjórn, sem fóru fram fyrr í dag, um fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og fjármálastefnu Reykjavíkurborgar fyrir tímabilið 2023 til 2027, vakti Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, athygli á því að útkomuspá fyrir rekstur borgarsjóðs árið 2022 sé „nokkuð óvænt“ enda hafi fjárhagsáætlun ársins gert ráð fyrir 2,8 milljaðra halla. „Hér er því um að ræða nærri sexfaldan halla miðað við áætlanir“, sagði Hildur í ræðu sinni.
Hún benti jafnframt á að árið 2023 sé gert ráð fyrir neikvæðri rekstrarniðurstöðu sem nemur tæpum sex milljörðum króna. „Þessi reikningur er enginn yndislestur, ekki síst vegna þess hve sporin hræða. Þó áætlun næsta árs geri ráð fyrir verulega neikvæðri rekstrarniðurstöðu höfum við almennt sé niðurstöður sem enda mun sunnar en áætlanir gera ráð fyrir. Það er því erfitt að vera bjartsýnn yfir framhaldinu“, sagði Hildur.
Á næstu misserum er ekki gert ráð fyrir ráðningum í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til og leggja borgaryfirvöld áherslu á að sviðsstjórar og aðrir stjórnendur gæti aðhalds í launaútgjöldum.
Í tilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér í morgun kom fram að stefnt væri að jákvæðri rekstrarniðurstöðu frá og með árinu 2024. Bent var á að heimsfaraldurinn hefði haft mikil áhrif á rekstur borgarinnar en hröð kólnun í hagkerfinu og á vinnumarkaði hefði leitt til þess að tekjur borgarinnar voru töluvert undir áætlun á árunum 2020 og 2021. Vonir stóðu hins vegar til þess að viðsnúningur yrði kröftugur á þessu ári en það hefur ekki gengið að „fullu eftir,“ sagði í tilkynningunni.
„Án skilnings frá ríkinu á fjármögnun þeirrar þjónustu sem ríkið sjálft gerir kröfu um, þá verður þessi málaflokkur vanfjármagnaður og það er ekki bara grafalvarlegt fyrir þjónustu sveitarfélaga og fjárhag heldur bitnar það helst á þeim sem eiga rétt á þjónustunni og bíða frekari uppbyggingar í honum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár er sögð taka mið af þessum veruleika.
„Gætt er aðhalds í framlögum til málaflokkanna og sett fram áætlun um aðgerðir með hliðsjón af markmiði fjármálastefnu um jafnvægi í rekstri og styrkingu veltufjár frá rekstri. Á næstu misserum er ekki gert ráð fyrir ráðningum í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til og leggja borgaryfirvöld áherslu á að sviðsstjórar og aðrir stjórnendur gæti aðhalds í launaútgjöldum og reyni að finna aðrar leiðir en endurráðningar í laus störf,“ segir í tilkynningunni.
Hildur gagnrýndi hins vegar í umræðum borgarstjórnar mikla fjölgun starfsmanna í A-hluta borgarinnar en þeim hefur fjölgað um 25 prósent á síðustu fimm árum.
Í ræðu hennar kom fram að í dag starfi 11.703 einstaklingar innan A-hluta borgarinnar, en þeir hafi verið 9.346 árið 2017. „Starfsmönnum borgarinnar hefur fjölgað langt umfram lýðfræðilega þróun síðustu árin en yfir sama tímabil hefur íbúum borgarinnar aðeins fjölgað um 10%. Þetta er varhugaverð þróun og birtingamynd af bæði ofvöxnu kerfi og slæmum rekstri“, sagði Hildur í umræðum.
Innherji hefur áður fjallað um að Reykjavíkurborg hafi fjölgað stöðugildum mun meira en önnur stór sveitarfélög í heimsfaraldrinum. Talsmenn borgarinnar hafa gefið út að mikil fjölgun stöðugilda á stuttu tímabili hafi verið hluti af vinnumarkaðsaðgerðum sem ætlað var að viðhalda ákveðnu atvinnustigi.
Hildur benti á að starfsmönnum haldi áfram að fjölga árið 2023. Leikskólum hafi verið gert að halda að sér höndum í mannaráðningum en samtímis sé mest starfsmannafjölgun áformuð innan miðlægrar stjórnsýslu, sem hýsir meðal annars skrifstofu borgarstjóra. „Það virðist ekki hægt að fjölga starfsfólki leikskóla, því á að fækka um 75 á næsta ári, en alltaf má fjölga starfsmönnum í miðlægri stjórnsýslu. Áætlað er að þeim fjölgi um 13% á næsta ári“, nefndi Hildur.
Þá benti hún jafnframt á hvernig launakostnaður reyndist 89% af samanlögðum útsvars- og Jöfnunarsjóðstekjum árið 2022. „Fyrir hverjar 1.000 krónur sem útsvarsgreiðendur láta af hendi til borgarsjóðs, renna 890 krónur í starfsmannakostnað og eftir sitja aðeins 110 krónur í önnur verkefni.“
Samkvæmt fjárhagsáætlun A-hluta borgarinnar fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir rekstrarhalla upp á 6 milljarða. Þá er ráðgert að eignir A-hlutans verði tæplega 267 milljarðar í lok næsta árs og aukist um 11,6 milljarða milli ára. Eiginfjárhlutfallið muni þá standa í um 72,4 prósentum.
Hildur gagnrýndi væntanlegar arðgreiðslur Orkuveitunnar en eigendur OR, sem er að stærstum hluta Reykjavíkurborg, munu fá samtals um 27,5 milljarða greidda í arð frá félaginu til ársins 2027.
Við þurfum að ráðast í hagræðingar, minnka yfirbyggingu og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. Samhliða þarf að útvista fleiri verkefnum og láta af samkeppnisrekstri.
„Maður spyr sig hreinlega hvort rekstur borgarinnar reiði sig á arðgreiðslur frá Orkuveitunni? Ef ekki væri fyrir þessar arðgreiðslur væri hallinn af rekstri borgarinnar 19 milljarðar í ár og 11 milljarðar á næsta ári. Þetta er varhugavert, ekki síst vegna þess að arðgreiðslur Orkuveitunnar eiga rætur að rekja til gjaldskráa sem eru óþarflega háar, við köllum þær raunar dulbúna skattheimtu á borgarbúa“, sagði Hildur í ræðu sinni.
35 milljarða skuldaaukning árið 2022
Skuldir samstæðu jukust um tæpa 35 milljarða árið 2022, en þar af jukust skuldir A-hluta um tæpa 32 milljarða. „Þetta samsvarar skuldaaukningu sem nemur 664 milljónum á viku eða 95 milljónum á sólarhring“, sagði Hildur í ræðu sinni.
Þá benti hún á að áætlun síðasta árs hafi gert ráð fyrir skuldaaukningu sem næmi 53 milljörðum samanlagt á árunum 2022 til 2025. „Við gagnrýndum þessi áform harðlega enda þótti okkur nóg um. Manni bregður því í brún þegar skuldir hafa aukist um 35 milljarða strax fyrsta árið. Áfram er gert ráð fyrir frekari skuldsetningu en nú er ráðgert að nýjar lántökur nemi 83 milljörðum til ársins 2027.“
„Það er löngu tímabært að sýna ráðdeild í rekstri borgarinnar. Við þurfum að ráðast í hagræðingar, minnka yfirbyggingu og hefja skipulega niðurgreiðslu skulda. Samhliða þarf að útvista fleiri verkefnum og láta af samkeppnisrekstri. Einungis þannig náum við böndum á stjórnlausum rekstri“, sagði Hildur að lokum.