Samkvæmt umfjöllun Guardian voru yfirvöld í Seúl vöruð við þeim fjölda fólks og aðstæðunum sem höfðu myndast á svæðinu áður en þær urðu banvænar. Haft er eftir forsætisráðherra Suður-Kóreu, Han Duck-soo þar sem hann segir slysið „hörmulegt slys sem aldrei hafi átt að gerast.“
Hann hafi viðurkennt að skipulag stofnanna í kringum öryggi hátíðarhalda hafi brugðist, þetta skipulagsleysi beri hluta af ábyrðinni þegar komi að slysinu. Ríkisstjórn landsins muni vinna með öllum þeim embættum sem þarf til þess að tryggja að ekkert þessu líkt gerist aftur.
Yfirlögreglustjóri landsins hafi einnig sagt viðbragð við símtölum sem bárust neyðarlínunni hafa verið slæmt en mikill fjöldi símtala hafi borist áður en að hörmungarnar áttu sér stað.
Mikill meirihluti þeirra sem létust í kjölfar slyssins voru sagðir táningar eða á þrítugsaldri en mikil sorg hafi ríkt í landinu í kjölfar slyssins. Mikill troðningur myndaðist á hrekkjavökufögnuðinum en hátíðarhöldin voru þau fyrstu síðan kórónuveirufaraldurinn hófst þar sem ekki var þörf á að bera andlitsgrímu.
Fólk er sagt hafa fallið í troðningi í húsasundi en verið er að rannsaka tildrög slyssins nánar. Þetta er mannskæðasti troðningur sem hefur orðið í sögu landsins og annað mannskæðasta slysið í sögu þess.