Viðskipti innlent

Kröfur upp á 940 milljónir í þrota­bú Víðis

Bjarki Sigurðsson skrifar
Krónan hóf rekstur í húsnæði sem Víðir notaði í Skeifunni eftir að félagið varð gjaldþrota. Fyrr í ár færði Krónan sig um set og nú er húsið autt.
Krónan hóf rekstur í húsnæði sem Víðir notaði í Skeifunni eftir að félagið varð gjaldþrota. Fyrr í ár færði Krónan sig um set og nú er húsið autt. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson

Gjaldþrotaskiptum í þrotabúi Víðis ehf. sem rak samnefndar matvöruverslanir lauk í síðustu viku. Heildarfjárhæð lýstra krafna nam rúmum 940 milljónum króna. 

Víðir ehf. varð óvænt gjaldþrota í júní árið 2018. Stöð 2 fjallaði ítarlega um málið þá og sagði lögfræðingur VR, Guðmundur B. Ólafsson, þá að ekkert hafi bent til þess að fyrirtækið væri á leiðinni í þrot. Allt í einu var skellt í lás fimmtudaginn 7. júní og starfsmönnum tilkynnt daginn eftir að fyrirtækið væri gjaldþrota. Það var síðan miðvikudaginn 13. júní sem búið var tekið til gjaldþrotaskipta. 

Greint er frá skiptalokum í Lögbirtingablaðinu í dag en þar segir að heildarfjárhæð lýstra krafna nemi rúmar 940 milljónir króna. Samþykktar kröfur námu samtals 354 milljónum króna. Ekkert fékkst greitt upp í lýstar kröfur. 

Verslanir Víðis voru í eigu Eiríks Sigurðarsonar, kaupmanns, og eiginkonu hans, Helgu Gísladóttur. Fyrsta verslunin var opnuð árið 2011 en alls voru fimm verslanir í rekstri þegar félagið varð gjaldþrota. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×