Í tilkynningu frá Eyri, sem fer í dag með tæplega fjórðungshlut í Marel, er samningurinn sagður styrkja efnahag félagsins og auðvelda „umtalsverðar endurgreiðslur“ bankaskulda og styðja við uppbyggingu og vöxt næstu ára í samræmi við áætlanir.
„Það er mikill fengur í því að fá eins öfluga samstarfsaðila og JNE Partners og The Baupost Group eru til liðs við Eyri Invest. Þeir búa yfir mikilli reynslu og verðmætri þekkingu á alþjóðamörkuðum sem mun nýtast Eyri á komandi árum. Staða Marel er mjög sterk, þrátt fyrir þróun heimshagkerfisins og með innkomu JNE Partners og The Baupost Group er Eyrir nú enn betur í stakk búið til að styðja frekar við Marel sem kjölfestufjárfestir. Samkvæmt þeirri framtíðarsýn sem stjórnendur Marel hafa dregið upp opinberlega má búast við verulegum vexti og virðisaukningu Marel á næstu árum sem og í öðrum eignum í eignasafni Eyris“ segir Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris.
Stofnandi bandaríska vogunarsjóðsins Baupost er hinn heimsþekkti fjárfestir Seth Klarman.
Með innkomu JNE Partners og The Baupost Group er Eyrir nú enn betur í stakk búið til að styðja frekar við Marel sem kjölfestufjárfestir.
Stærstu eigendur Eyris Invest eru feðgarnir Þórður og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, en þeir fara samanlagt með nærri 39 prósenta hlut. Aðrir helstu hluthafar fjárfestingafélagsins eru Landsbankinn, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður verslunarmanna. Samanlagður eignarhlutur þessa hóps í Eyri er um 78 prósent.
Innherji greindi frá því í síðasta mánuði að Eyrir væri að vinna að því að styrkja fjárhagsstöðu félagsins frekar gagnvart þeim lánaskuldbindingum sem hvíla á félaginu, þar sem meðal annars kæmi til greina fá inn nýtt hlutafé með innkomu nýrra fjárfesta.
Í byrjun þessa árs námu vaxtaberandi skuldir Eyris um 277 milljónum evra en stærsti lánveitandi félagsins er Citibank. Lánasamningur Eyris við bandaríska bankann var stækkaður úr 110 milljónum evra í 150 milljónir evra á liðnu ári þar sem kjörin þóttu þá hagstæðari en voru í boði á innlendum fjármálamarkaði og með lántökunni væri dregið úr endurfjármögnunaráhættu félagsins. Á næsta ári eru áætlaðar afborganir vaxtaberandi skulda rúmlega 70 milljónir evra.
Veðsettar eignir Eyris fyrir greiðslu vaxtaberandi bankalána félagsins er eignarhlutur í Marel og var bókfært virði þess hlutar rúmlega 880 milljónir evra um síðustu áramót, samkvæmt síðasta ársreikningi. Félagið uppfyllti þá allar kvaðir í lánasamningum sínum en frá þeim tíma hefur hlutabréfaverð Marels lækkað um meira en 40 prósent.
Í flöggun Eyris Invest til Kauphallarinnar fyrr í kvöld kom fram að samkvæmt lánasamningnum við Baupost og JNE Partners eiga sjóðirnir einhliða rétt á að velja milli þess að fá hlutdeild sína í láninu greidda til baka í peningum í samræmi við skilmála þess eða fá afhenda samtals 62,7 milljónir hluta að nafnvirði í Marel. Það jafngildir um 8,1 prósenta hlut í Marel. Miðað við núverandi hlutabréfaverð félagsins, sem stendur í 506 krónum á hlut, er markaðsvirði þess hlutar tæplega 32 milljarðar króna, eða um 28 prósentum hærra en fjárhæð lánasamningsins.
Nýti sjóðirnir sér kaupréttinn að fjórum árum liðnum mun eignarhlutur Eyris Invest minnka um þriðjung – úr 24,7 prósentum í 16,55 prósent.
JNE Partners þekkir vel til Marel en félag á vegum þess – MSD Partners – kom fyrst inn í hluthafahóp Marels árið 2017 þegar það keypti jafnvirði um tveggja prósenta hlut í félaginu af Eyri Invest og varð þá um sjöundi stærsti hluthafinn. Fjárfestingarfélagið heldur meðal annars utan um eignir Michael Dell, stofnanda og forstjóra tölvufyrirtækisins Dell Technologies, og fjölskyldu hans.
Jonathan Esfandi, framkvæmdastjóri hjá JNE Partners, segir félagið hafa mikla trú á Marel.
„Við virðum mikils hvernig Eyrir Invest sem kjölfestufjárfestir og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, hafa leitt vöxt Marel síðustu tvo áratugi og þann árangur sem náðst hefur undir þeirra forystu. Við erum afar ánægð með að styrkja nú samstarf okkar enn frekar við Eyri Invest og við hlökkum til samstarfs um áframhaldandi vöxt og frekari þróun Marel sem og annarra eigna í eignasafni Eyris Invest.“
Ráðgjafar Eyris í tengslum við fjármögnunina voru Arctica Finance og LOGOS sem nutu aðstoðar Arendt. Ráðgjafar JNE Partners LLP og The Baupost Group voru Reed Smith LLP sem nutu aðstoðar Elvinger Hoss Prussen.