Erlent

Imran Khan særður eftir skotárás

Samúel Karl Ólason skrifar
Imran Khan á sjúkrabörum eftir að hann særðist í dag.
Imran Khan á sjúkrabörum eftir að hann særðist í dag. AP

Imran Khan, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, særðist eftir að árásarmaður hóf skothríð á mótmælum í Wazirabad í dag. Aðrir stjórnmálamenn úr flokki Khans eru sagðir hafa særst í árásinni og einn þeirra er dáinn.

Khan, sem er sjötíu ára gamall, var að leiða mótmæli þar sem hann og stuðningsmenn hans kröfðust þess að haldnar yrðu kosningar í kjölfar þess að honum var komið frá völdum.

Ráðgjafi forsætisráðherrans fyrrverandi sagði AFP fréttaveitunni að um banatilræði hafi verið að ræða en Khan særðist á fæti. Árásarmaðurinn er sagður hafa verið vopnaður sjálfvirku vopni en hann er sagður hafa verið handtekinn.

Í frétt BBC segir frá því að í síðasta mánuði hafi yfirkjörstjórn Pakistans meinað Khan að bjóða sig fram til embættis á nýjan leik. Hann hefur verið sakaður um spillingu í tengslum við gjafir frá erlendum erindrekum.

Shehbaz Sharif, núverandi forsætisráðherra, hefur fordæmt árásina og heitir því að málið verði rannsakað til hlítar.


Tengdar fréttir

Þing rofið og boðið til nýrra kosninga í Pakistan

Imran Khan forsætisráðherra Pakistan hefur rofið þing og boðað til nýrra þingkosninga. Khan tilkynnti þetta eftir að hafa naumlega sloppið við að vantrauststillaga yrði samþykkt á þinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×