Fótbolti

Blikabanarnir frá Istanbul tryggðu sér efsta sæti riðilsins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Vangelis Pavlidis fagnar hér marki sínu fyrir AZ Alkmaar í kvöld en hann skoraði sigurmark liðsins gegn Dnipro.
Vangelis Pavlidis fagnar hér marki sínu fyrir AZ Alkmaar í kvöld en hann skoraði sigurmark liðsins gegn Dnipro. Vísir/Getty

Keppni í fimm riðlum af átta í Sambandsdeild UEFA er lokið en keppni í þremur riðlum er enn í gangi. Norska liðið Molde féll úr keppni eftir stórt tap gegn Gent og þá fóru Blikabanarnir í Istanbul Basaksehir örugglega áfram.

Tyrkneska liðið Istanbul Basaksehir, sem sló Breiðablik út í Sambandsdeildinni í sumar, endaði í efsta sæti A-riðils og fara þar áfram ásamt ítalska liðinu Fiorentina. Tyrkirnir unnu 3-1 sigur á Hearts frá Skotlandi í kvöld.

Í E-riðli náði AZ Alkmaar örugglega efsta sæti riðilsins en úkraínska liðið SC Dnipro fer einnig áfram þrátt fyrir tap í Hollandi í kvöld.

Sænska liðið Djurgarden hefur átt mjög góðu gengi að fagna í keppninni og fóru taplausir í gegnum riðlakeppnina eftir sigur á Shamrock Rovers frá Írlandi í kvöld. Þeir náðu efsta sæti F-riðils en belgíska liðið Gent náði öðru sætinu af Molde eftir 4-0 sigur í leik liðanna í kvöld.

Í G-riðli endaði tyrkneska liðið Sivasspor í efsta sætinu og Cluj frá Rúmeníu tryggði sér áframhaldandi þátttöku með sigri á FC Balikani í kvöld.

Að lokum tryggðu Slovan Bratislava og FC Basel sig áfram úr H-riðlinum eftir sigra í leikjum sínum í kvöld.

Dregið verður í næstu umferð í Sambandsdeildinni, Evrópudeildinni og Meistaradeildinni á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×