Fótbolti

Endurtekning frá úrslitaleik síðasta tímabils

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Real Madrid á titil að verja í Meistaradeild Evrópu eftir að hafa unnið keppnina í fjórtánda sinn á síðasta tímabili.
Real Madrid á titil að verja í Meistaradeild Evrópu eftir að hafa unnið keppnina í fjórtánda sinn á síðasta tímabili. getty/Cesare Purini

Liðin sem mættust í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili, Real Madrid og Liverpool, eigast við í sextán liða úrslitum keppninnar að þessu sinni. Dregið var í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar í fótbolta karla í dag.

Real Madrid vann Liverpool, 1-0, í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili. Ljóst er að þau mætast ekki í úrslitaleiknum í Istanbúl næsta vor því þau drógust saman í sextán liða úrslitum keppninnar. 

Hin stóra viðureignin í sextán liða úrslitum er á milli Paris Saint-Germain og Bayern München. Þessi lið mættust í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir tveimur árum þar sem Bayern vann 1-0 sigur.

Benfica vann H-riðil Meistaradeildarinnar á ævintýralegan hátt á kostnað PSG og það gæti reynst frönsku meisturunum dýrt. Benfica getur aftur á móti vel við unað því liðið dróst gegn Club Brugge sem er fyrsta belgíska liðið sem kemst í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Manchester City og Chelsea drógust bæði gegn þýskum liðum. Englandsmeistarar City mæta RB Leipzig og Chelsea mætir Borussia Dortmund. Tottenham mætir AC Milan líkt og tímabilið 2010-11.

Napoli, topplið ítölsku úrvalsdeildarinnar, dróst gegn Evrópudeilarmeisturum Frankfurt og Inter og Porto eigast við.

Leikirnir í sextán liða úrslitum

  • Leipzig - Man. City
  • Club Brugge - Benfica
  • Liverpool - Real Madrid
  • Milan - Tottenham
  • Frankfurt - Napoli
  • Dortmund - Chelsea
  • Inter - Porto
  • PSG - Bayern München

Fyrri leikirnir í sextán liða úrslitum fara fram 14., 15., 21. og 22. febrúar og seinni leikirnir 7., 8., 14., og 15. mars.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×