Markaðsvirði Origo er nú 35 milljarðar króna, og hefur hækkað um 2,5 prósent það sem af er degi. Eftir lækkun hlutafjár félagsins um 24 milljarða gæti markaðsvirði Origo lækkað í um ellefu milljarða króna miðað við þessar forsendur. Við það yrði það langminnsta félagið á Aðallistanum.
Bandaríski tæknifjárfestingasjóður á vegum Diversis Capital keypti 40 prósenta hlut í Tempo í október. Söluandvirðið hlutarins var næstum jafn mikið og þáverandi markaðsvirði allrar Origo-samstæðunnar í Kauphöllinni. Hann keypti 55 prósenta hlut í Tempo árið 2018 fyrir 34,5 milljónir Bandaríkjadala af Origo. Virði hlutafjársins hefur því áttfaldast á fjórum árum.
Hjalti Þórarinsson, stjórnarformaður Origo, hefur áður sagt að sala á meirihluta í Tempo hafi verið til að fá meðfjárfesta með alþjóðlega reynslu til að hraða vexti félagsins og auka virði fyrir hluthafa Origo.
Jón Björnsson, forstjóri Origo, sagði við Viðskiptablaðið eftir söluna að það hafi verið góð ákvörðun árið 2018 að fá til liðs við félagið fjárfesti sem gæti „tekið gott verkefni enn þá lengra.“
Hann bætti við: „Ég held að þessi vegferð sé búin að skila meiri ávöxtun en fólk óraði fyrir þegar lagt var af stað í þetta ferðalag.“
Tempo er í grunninn íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki stofnað af starfsfólki TM Software. Origo, þá Nýherji, keypti 77 prósenta hlut í TM Software á 1,7 milljarða króna árið 2007. Þá velti nýja dótturfélagið um 2,5 milljörðum króna.
Á undanförnum þremur árum hefur gengi Origo hækkað um 227 prósent en Úrvalsvísitalan um 24 prósent.
Fram kemur í greinargerð að stjórnar geri ráð fyrir að á bilinu 24-26 milljarðar af hinu 27,5 milljarða króna söluandvirði verði greiddir út til hluthafa. „Eftir söluna á Tempo er lausafjárstaða félagsins afar sterk og eiginfjárhlutfall um 83,96%. Það er mat stjórnar að rétt sé að færa hlutaféð niður og koma stærstum hlut þessa söluandvirðis til hluthafa félagsins,“ segir í greinargerðinni.
Fjárhagsstaða félagsins verður eftir sem áður „afar sterk og eiginfjárhlutfall enn hátt“ eða tæplega 56,7 prósent verði tillaga stjórnar samþykkt. „Er það mat stjórnar að eftir útgreiðslu lækkunarfjárhæðarinnar verði félagið mjög vel sett til þess að nýta og fjármagna þau vaxta- og verðmætasköpunartækifæri sem blasa við stjórnendum félagsins.“
Origo hyggst verja einum til þremur milljörðum króna í hraðari styrkingu á tækniumhverfi félagsins, hraðari þróun á völdum hugbúnaðarvörum félagsins og mögulegri styrkingu á vöruúrvali félagsins á skilgreindum kjarnasviðum þess í hugbúnaði. Upplýst verður nánar um þær ráðstafanir í aðdraganda aðalfundar sem haldinn verður 9. mars 2023.
Auk þess þá er stefnt að verja 500 milljónum króna til að stofna starfsþróunar- og menntasjóðs „þar sem ávöxtun verður nýtt til endurmenntunar núverandi og tilvonandi starfsmanna á sviði hugbúnaðarþróunar og nýsköpunar“. Stofnun sjóðsins verður kynnt nánar á hluthafafundinum í næsta mánuði.
Fjórir stærstu hluthafar Origo eru lífeyrissjóðirnir LIVE, Birta, Stapi og Lífsverk. Hlutabréfasjóður á vegum Stefnis er fimmti stærsti hluthafinn.