Erlent

Lætur utan­­­ríkis­ráð­herrann Jenis av Rana gossa

Atli Ísleifsson skrifar
Jenis av Rana hefur gegnt embætti utanríkis- og menntamálaráðherra í landsstjórn Færeyja frá árinu 2019.
Jenis av Rana hefur gegnt embætti utanríkis- og menntamálaráðherra í landsstjórn Færeyja frá árinu 2019. EPA

Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, hefur ákveðið að nýta heimild í lögum til að reka Jenis av Rana úr embætti utanríkis- og menntamálaráðherra. Bárður segir að umburðarlyndi sitt í garð ráðherrans sé á þrotum.

Frá þessu er greint á vef Kringvarpsins í morgun, en brottreksturinn er þó háður heimild í lögum sem kveður á um að heimilt sé að leysa ráðherra frá embætti sé það samþykkt af meirihluta þingmanna.

Bárður segir að frá því að hann tók við embætti lögmanns hafi hann reynt að vera diplómatískur og umburðarlyndur í sínum störfum. Jenis av Rana, sem er þingmaður færeyska Miðflokksins, hafi hins vegar í sumum tilvikum talað gegn stefnu Nielsen og gert honum erfitt fyrir í störfum sínum.

Bárður á Steig Nielsen tók við embætti lögmanns Færeyja árið 2019.EPA

Í yfirlýsingu sinni segir Bárður að eftir að Jenis hafi í gær beinlínis hvatt aðra ráðherra til að ganga gegn orðum lögmannsins sé umburðarlyndið einfaldlega á þrotum.

Þrátt fyrir að vilja Jenis úr ríkisstjórninni segir Bárður Miðflokkinn enn hluta af ríkisstjórnarsamstarfinu, sem samanstendur einnig af Sambandsflokknum og Fólkaflokknum. Málið snúist eingöngu um framkomu ráðherrans.

Áður en tilkynning Bárðar barst hafði Høgni Hoydal, formaður stjórnarandstöðuflokksins Tjóðveldis, boðað vantrauststillögu á hendur ráðherranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×