CNN greinir frá þessu en þúsundir manna hafa mótmælt núverandi stjórnarfari í Íran svo vikum skipti eftir að ung kona að nafni Mahsa Amini lést í haldi siðgæðislögreglunnar þar í landi.
Bréf sem á að hafa verið birt af írönskum miðlum á sunnudag og er sagt hvetja dómarastétt landsins til þess að kenna mótmælendum lexíu með hörðum viðbrögðum við athæfi þeirra.
Dómarastéttin ásamt opinberum aðilum séu í bréfinu beðnir um að koma fram við þá sem „heyja stríð“ gegn landinu og ráðist á eignir fólks á þann veg að mótmælendur myndu læra sína lexíu fljótt.
Greint hefur verið frá því að 227 af 290 þingmönnum Íran hafi undirritað bréfið. Ríkið hafi einnig ákært í það minnsta þúsund manns fyrir meinta þátttöku þeirra í mótmælunum í kjölfar andláts Amini. Tugir þeirra hafi verið kærðir fyrir „fjandskap gegn Guði“ ásamt „spillingu á jörðu“ en þau brot beri með sér dauðadóm.
Um fjórtán þúsund manns, þar á meðal blaðamenn, aðgerðasinnar, lögmenn og kennarar hafi verið handteknir síðan mótmælin hófust um miðjan september síðastliðinn.