Inga Henriksen er ein þeirra kvenna sem sagði frá reynslu af ofbeldi í nánu sambandi í söfnunarþættinum Saman byggjum við nýtt Kvennaathvarf á Stöð 2 í gær. Barnsfaðir Ingu var dæmdur fyrir að beita hana og börn hennar ofbeldi.
„Þegar ég lít til baka þá voru mörg móment þar sem ég hefði átt að stíga út. Það er talað um þessi rauðu flögg, sem ég algjörlega hundsaði. Við flytjum út til Svíþjóðar og það æxlast þannig að gríman algjörlega fellur.“
Inga lýsir því að hún og börnin hafi upplifað mikla breytingu á honum úti í Svíþjóð.
„Við verðum mun einangraðri, við erum ekki með aðgang að bíl, við höfðum ekki aðgang að húslyklum. Við höfðum ekki aðgang að síma nema eftir hans hentisemi.“
Vikuna sem lögregla var kölluð að heimili þeirra hafði andrúmsloftið verið spennuþrungið. Endaði eitt kvöldið svo með alvarlegri líkamsárás og nágrannar kölluðu á lögreglu til þess að bjarga Ingu og börnunum.
„Atburðarrásin endaði þannig að ég missti tvisvar sinnum meðvitund þetta kvöld.“
Frásögn Ingu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Árlega leita yfir 700 konur til Kvennaathvarfsins í leit að ráðgjöf og öruggu skjóli. Sett hefur verið af stað söfnun fyrir stærra og hentugra húsnæði undir yfirskriftinni Saman byggjum við nýtt Kvennaathvarf. Söfnunarþáttur er sýndur á Stöð 2 þann 10. nóvember.
Söfnunarnúmerin má sjá hér fyrir neðan:
- -907-1010- 1.000 krónur
- -907-1030 -3.000 krónur
- -907-1050-5.000 krónur
Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög:
Kennitala 410782 – 0229 - Reikningsnúmer 515-14-7700