Í dag var viðburðurinn „Björgum dýrunum í Bæjarsveit“ búinn til á Facebook. Ingiveig Gunnarsdóttir stendur fyrir honum og segja hún tilganginn vera að koma búfénaði á Nýjabæ til hjálpar.
„Ástand dýranna fer versnandi með hverjum degi sem líður en um langt skeið hafa þau hvorki haft aðgang að fóðri né vatni. Enginn sinnir þörfum dýranna, hvorki eigendur né yfirvöld. Því er brýnt að dýravinir taki nú höndum saman til að koma í veg fyrir frekari þjáningu og vosbúð dýranna,“ segir í lýsingu viðburðarins.
Tæplega 140 manns hafa sagst hafa áhuga á því að mæta en Matvælastofnun (MAST) biður fólk um að mæta ekki. Stofnunin sé með málið í vinnslu.
„Fyrir liggur að Matvælastofnun og lögreglan á Vesturlandi verða á staðnum á morgun að vinna að velferð dýranna á bænum. Við biðlum til allra hluteigandi að veita Matvælastofnun og lögreglu rými og vinnufrið því sameiginlegt markmið okkar allra er að tryggja velferð dýranna,“ segir í tilkynningu á vef MAST.
Fyrr í dag sendi MAST frá sér aðra tilkynningu um málið í Borgarfirði. Þar segir að stofnunin vilji árétta að málið sé þar til meðferðar. Meðan á vinnslu málsins standi mun stofnunin sjá til þess að allir gripir búsins hafi aðgang að nægu heyi og vatni.
Í tilkynningunni segir einnig að vegna stjórnsýslu- og persónuverndarlaga geti stofnunin ekki tjáð sig um þær aðgerðir sem unnið er að. Af þeim sökum sé fréttaflutningur og umfjöllun á samfélagsmiðlum einhliða.
„Í einhverjum tilfellum hafa rangar ályktanir komið fram sem gerir það að verkum að almenningur fær ekki rétta mynd af stöðu mála og þeim afskiptum sem stofnunin hefur haft af búrekstrinum,“ segir í tilkynningunni.