Endanleg niðurstaða í öldungadeildinni mun því ekki liggja fyrir fyrr en eftir 6. desember en þá munu Georgíubúar ganga aftur til kosninga um sætið þar sem hvorugur frambjóðandi stóru flokkana tveggja hlaut meira en 50 prósent atkvæða. Það breytir samt sem áður ekki stöðu öldungadeildarinnar þar sem Demókratinn og varaforsetinn Kamala Harris hefur úrslitaatkvæðið og gulltryggir sínum flokki meirihluta. Öldungadeildarsæti Georgíu kæmi sér þó vel fyrir Demókrata til þess að ekki þyrfti að treysta á nauman meirihluta hverju sinni.
Staðan í fulltrúadeildinni er aftur á móti enn óljós. Reiknað er með því að Repúblikanar tryggi sér meirihluta þar en 218 sæti þarf til þess. Eins og staðan er núna hafa Repúblikanar tryggt sér 211 sæti og Demókratar 204. Tuttugu sæti eru því enn óákveðin. Svo mjótt er á munum í baráttunni hin ýmsu fulltrúadeildarþingsæti að möguleiki er á endur talningu. Þetta á til dæmis við í Colorado.
Nánari tölfræði um þingsætin má sjá með því að smella hér eða á vef AP.

Mun á þingdeildunum tveimur má til dæmis sjá á lengd stefnumótunartímabila þingmanna. Öldungadeildarþingmenn sitja í sex ár á þingi en fulltrúadeildarþingmenn í tvö ár. Öldungadeildarþingmenn hafa þannig möguleika á að móta stefnu landsins til lengri tíma á meðan fulltrúadeildarþingmenn bregðast meira við málefnum hversdagsins og eru tengdari kjósendum.
Þar að auki liggur valdið til þess að hafa frumkvæði að fjárlögum hjá fulltrúadeild en öldungadeildin hefur mikil áhrif á það hverjir eru skipaðir í hin ýmsu embætti. Hún kemur að því að staðfesta fulltrúa sem að forsetinn skipar til dæmis í dómstóla, ráðherraembætti og fleira.