Erlent

Lavr­­ov sagð­­ur hafa far­ið á sjúkr­a­hús á Balí

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. AP/Raad Adayleh

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, var fluttur á sjúkrahús í morgun, samkvæmt AP fréttaveitunni. Það var skömmu eftir að hann lenti á Balí á Indónesíu fyrir G-20 fundinn sem fer þar fram en utanríkisráðuneyti Rússlands segir það ekki rétt.

AP fréttaveitan hefur eftir embættismönnum í Indónesíu og læknum að Lavrov hafi verið fluttur á sjúkrahús vegna hjartakvilla. Hann mun hafa verið fluttur á Sanglah-sjúkrahúsið í Denpasar, héraðshöfuðborg Balí.

María Sakaróva, talskona utanríkisráðuneytis Rússlands, sagði að Lavrov hefði ekki verið lagður inn á sjúkrahús og birti myndband af honum á Telegram í morgun. Í því sagðist Lavrov vera að undirbúa sig fyrir G-20 fundinn sem hefst á morgun og bað hann vestræna blaðamenn um að sýna meiri heiðarleika.

Því var þó ekki haldið fram í frétt AP að Lavrov hefði verið lagður inn á sjúkrahús.  Lavov segir ekki í myndbandinu að hann hafi ekki farið á sjúkrahús.

G-20 fundurinn hefst á morgun en Lavrov er hæst settir rússneski embættismaðurinn sem sækir hann. Á fundinum hittast æðstu ráðamenn ríkustu ríkja heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×