„Árið 2017, þegar ég var að spila, greindist ég með æxli í maga og þurfti að fara í aðgerð,“ sagði Samira í samtali við Vísi.
„Þetta var mikið áfall en guð er svo góður og fólkið í fótboltanum á Íslandi er ótrúlegt og það hjálpaði mér að gangast undir aðgerðina og koma til baka. Eins og við segjum stundum: þú veist ekki hversu sterkur þú ert nema þegar það að vera sterkur er eini kosturinn í stöðunni.“
Æxlið, sem var á stærð við keilukúlu, var fjarlægt úr maga Samiru. Hún segir að tíminn eftir aðgerðina hafi verið erfiður.
„Ég hafði engan annan kost. Ég varð að láta reyna á þetta. Fjölskyldan mín treystir á mig og fótboltinn er mér allt. Ég varð að vera sterk og komast yfir þessa hindrun. En ég þakka guði og ég hef getað spilað leikinn sem ég elska aftur,“ sagði Samira.
Hún gerði ekki ráð fyrir því að hún myndi spila fótbolta aftur eftir aðgerðina.
„Stundum er sagt að við íþróttafólk séum í svo góðu formi og verðum ekki veik en það var erfitt fyrir mig að þurfa að fara í aðgerð. Ég var smeyk en þetta er allt öðru vísi hérna en heima fyrir. Aðgerðin gekk vel, fótboltasamfélagið og allir hjálpuðu mér og ég kom sterkari til baka,“ sagði Samira.