Hér áður fyrr heyrðust oftar orð eins og póstmeistari, póststofa, póstþjónn, póstvagn, póstlúður, póstávísun og bögglapóstur. Bæjarpóstur var sá kallaður á Akureyri sem bar út póst á árum áður og menn báru sérstakar bréfhirðingatöskur. Þá voru krossbandssendingar mikið notaðar fyrir blöð og annað prentað mál og póstpokar voru áberandi – voru víst stundum keyptir frá dönskum tugthúsum.
Í dag blæs enginn í póstlúður en nú tölum við hins vegar um hjólapósta sem þeysast um hverfin á rafhjólum með gluggapóst og fólk sækir pakkana sína í póstbox eða jafnvel í pakkaport. Ýmis orð hafa fest sig í sessi, eins og pakkaflokkari, bréfaflokkunarvél, Póststoð, Póstmiðstöð, fjölpóstur, markpóstur, dreifikerfi, afhendingarleiðir, vefþjónustugátt og svo framvegis og svo framvegis.
Helsta áskorun okkar hjá Póstinum er, eins og hjá flestum, að halda á lofti íslenskum hugtökum og heitum í þeirri tæknibyltingu sem ríður yfir. Vefurinn og sjálfsafgreiðslukerfin, með öllum þeim forritum, skipunum og tengingum sem þeim fylgir, kalla á ný orð og heiti. Þá skiptir öllu máli að þau séu gagnsæ og auðskiljanleg fyrir viðskiptavini okkar.
Njáll, hinn eins árs gamli kisi, er spjallmennið okkar hjá Póstinum. Hann talar íslensku og hér leggja sig allir fram um að veita honum gott máluppeldi. Hann fær ótal fyrirspurnir á dag úr ólíkum áttum en hann heldur ró sinni og svarar öllum vinalega á vönduðu rafmáli og reynir að gefa eins greinargóðar upplýsingar og honum er unnt.
Fleiri vélmenni hafa fengið íslensk heiti hjá Póstinum. Eitt þeirra heitir Magni. Hann er mikill liðsauki í flokkun og dreifingu pakka. Til að finna nafn á þennan öfluga samstarfsmann var ákveðið að efna til nafnasamkeppni innan Póstsins og bárust margar góðar tillögur eins og Kolkrabbinn, Trölli, Þjarkur og Grýla.
Þó að þetta sé meira í gamni gert er mikilvægt að fólk komi sér saman um ákveðna orðanotkun til að auðvelda samskipti og koma í veg fyrir misskilning. Við viljum geta notað íslensku á öllum sviðum samfélagsins, þar með talið í póstþjónustu, og þess vegna er nauðsynlegt að skapa íslenskan póstorðaforða, ekki síst í hinum síbreytilega stafræna heimi.
Höfundur er efnisstjóri Póstsins.