Erlent

Repúblikanar taldir öruggir með meirihluta í fulltrúadeildinni

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Nú þykir ljóst að Repúblikanar nái yfirhöndinni í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.
Nú þykir ljóst að Repúblikanar nái yfirhöndinni í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. AP Photo/J. Scott Applewhite

Nú þykir orðið ljóst að Repúblikanaflokkurinn muni fara með völdin í fulltrúadeildinni á Bandaríkjaþingi.

Spá CBS sjónvarpsstöðvarinnar er nú á þá leið að flokkurinn fái 218 til 223 sæti, en fyrri talan er það lágmark sem flokkurinn þurfti til að ná meirihlutanum úr höndum Demókrata. Enn á þó eftir að staðfesta úrslit á nokkrum stöðum en litlar sem engar líkur eru taldar á því að það breyti því að Repúblikanar fari með meirihlutann.

Sá meirihluti verður þó afar naumur og þeim tókst ekki að ná völdum í öldungadeildinni. Kevin McCarthy, sem tilnefndur var af þingmönnum til að verða leiðtogi Repúblikana í þinginu, fagnar sigrinum á Twitter þar sem hann segir Bandaríkjamenn vera tilbúna til að fara í nýja átt á næstu árum.

Repúblikanar munu nú geta gert Joe Biden forseta mun erfiðara um vik að koma mörgum málum í gegn en ósigur þeirra í öldungadeildinni þýðir þó að völd forsetans og Demókrata eru meiri en þau hefðu getað orðið ef spár um úrslit kosninganna hefðu ræst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×