Ísland tryggði sér sigur í Eystrasaltsbikarnum með sigri á Lettlandi í vítaspyrnukeppni í leik sem var að ljúka. Patrik Sigurður Gunnarsson varði spyrnu Letta í áttundu umferð vítakeppninnar og tryggði sigurinn.
Leikið var í mjög erfiðum aðstæðum á Daugavas Stadiona í Riga þar sem hluti vallarins var frosinn. Leikmenn reyndu þó að gera gott úr því.
Ísland byrjaði leikinn mun betur og voru með mikla yfirburði fyrsta korterið í leiknum. Ísak Bergmann fékk fínt færi strax á 6. mínútu leiksins en besti maður Letta í dag, markvörðurinn Pavels Steinbors, varði frá honum. Sveinn Aron Guðjohnsen fékk svo tvö góð færi á 13. mínútu eftir fyrirgjöf frá Arnóri Sigurðssyni. Það fyrra var skalli í stöngina en boltinn datt svo aftur fyrir Svein sem tókst ekki að koma boltanum framhjá Steinbors.
Við þetta vöknuðu Lettar aðeins. Þrátt fyrir fínt spil og ágætis sóknir tókst þeim þó aldrei að ógna marki Íslands almennilega. Vörn Íslands stóð áhlaup Letta af sér og hélt þeim frá markinu.
Á 27. mínútu fékk svo Raimonds Krollis að líta beint rautt spjald. Mjög óvænt var að dómari leiksins skyldi sýna honum rauða litinn þar sem brotið var alls ekki svo gróft. Að vísu fór hann of seint og nokkuð harkalega í Daníel Leó Grétarsson en rautt spjald líklega full hörð refsing.
Besta færi leiksins fékk Mikael Neville Anderson á 42. mínútu. Arnór Sigurðsson átti þá einnig fyrirgjöf beint á hausinn á Sveini Aroni sem skallaði hann fyrir lappir Mikaels. Af markteigslínu reyndi Mikael að koma boltanum í netið en Steinbors markmaður var snöggur út og kom höndinni fyrir boltann. Hálfleikstölur 0-0.
Í upphafi síðari hálfleiks fékk Ísak Bergmann fínt færi eftir sendingu frá Mikael Neville en varnarmaður komst fyrir skot Ísaks. Það dró svo loks til tíðinda eftir klukkutíma leik þegar Arnór Sigurðsson skallaði boltann að marki og eftir að hann hafði farið í hönd Raivis Jurkovskis dæmdi dómari leiksins vítaspyrnu. Ísak Bergmann Jóhannesson fór á punktinn og skoraði þrátt fyrir að Steinbors náði að koma hönd á boltann. Ísland komið yfir 1-0 og allt virtist stefna í sigur íslenska liðsins.
Það reyndist þó ekki raunin því átta mínútum síðar sendi Aron Elís Þrándarson, sem var fyrirliði Íslands í leiknum, slæma sendingu út úr vörninni sem Lettar komust inn í og nokkrum sekúndum síðar skoraði Andrejs Ciganiks framhjá Patrik Sigurði. Lettar búnir að jafna metin og tuttugu mínútur til leiksloka.
Sveinn Aron Guðjohnsen og Þórir Jóhann Helgason fengu báðir fín færi til þess að vinna leikinn fyrir Ísland en skalli Sveins og skot Þóris bæði í samskeytin og úrslitin skyldu því ráðin í vítaspyrnukeppni.
Vítaspyrnukeppnin fór í 8 umferðir þar sem skorað var úr öllum vítunum. Daníel Leó skoraði úr því áttunda fyrir Ísland áður en Patrik Sigurður varði það áttunda frá Lettlandi frá fyrirliða þeirra, Antonijs Cernomordijs. Ísland því að lokum Baltic Cup meistari árið 2022 og bikarinn kemur heim.
Af hverju var jafntefli?
Íslenska liðið var bara ekki nægilega beitt fyrir framan markið. Við vorum mun betri heilt yfir í leiknum, fengum góða möguleika og boltinn fór oft inn í teig Letta en enginn einhvern vegin tilbúinn til þess að mæta og setja boltann yfir línuna. Lettar voru varla betri en Litháar á fimmtudaginn og þarf Ísland að gera betur.
Hverjir voru bestir?
Kantmennirnir voru flottir hjá Íslandi í dag. Mikael Neville og Arnór Sigurðsson áttu báðir margar góðar sendingar inn í teig Letta.
Hafsentaparið spilaði góðan leik. Ein mistök hjá Aroni Elís leiddu að marki Lettlands en fyrir utan það átti hann mjög margar góðar sendingar upp úr vörninni og stóð vaktina vel varnarlega.
Hvað mætti betur fara?
Ísland þarf að gera betur á síðasta þriðjungi og fjarlægja öll þessi klaufamistök.
Ísland fékk í dag færi til þess að skora miklu fleiri mörk en þetta eina úr víti og liðið þarf að gera betur þar.
Hvað gerist næst?
Ísland hefur lokið leik árið 2022. Líklegt er að það verði árlegt janúarverkefni þar sem „B-landsliðið“ mæti og spili tvo æfingaleiki en svo tekur við undankeppni EM í mars á næsta ári.