Erlent

Ung­mennin í I­da­ho voru stungin til bana

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Hér má sjá lögreglustöðina í Moscow í Idaho.
Hér má sjá lögreglustöðina í Moscow í Idaho. Getty/Education Images

Komið er í ljós að fjögur ungmenni sem fundust látin á heimili sínu fyrir um viku síðan í Idaho voru stungin til bana. Þau voru nemendur í Idaho háskóla í Bandaríkjunum.

Fórnarlömbin voru þrjár konur og einn karlmaður á aldrinum 20 til 21 árs. Konurnar voru sambýlingar og var karlmaðurinn kærasti einnar þeirra. Þau eru sögð hafa verið stungin margsinnis með „fremur stórum hníf“ á meðan þau sváfu. Árásin hafi átt sér stað þann 13. nóvember síðastliðinn. BBC greinir frá þessu.

Sum fórnarlambanna eru sögð bera merki þess að þau hafi reynt að verjast gerandanum. Einnig telja yfirvöld að markmið gerandans hafi verið að ráðast á þennan ákveðna hóp fólks.

Borgin Moscow í Idaho hýsir háskólann en þar búa um 25.000 manns.Getty/Education Images

Enginn hefur enn verið handtekinn og kemur bandaríska alríkislögreglan (FBI) að rannsókn málsins ásamt lögregluyfirvöldum á svæðinu. Þar að auki hefur morðvopnið ekki enn fundist.

Haft er eftir dánardómstjóra á svæðinu þar sem hann segir gerandann þurfa að „hafa verið einhver mjög reiður til þess að geta stungið fjóra til bana.“

Idaho háskóli er staðsettur í háskólaborginni Moscow í Idaho. Lögreglan í Moscow hefur greint frá því að ekki sé hægt að útiloka að um ógn við samfélagið allt á svæðinu sé að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×