Körfubolti

Maté: Ekki fallegt og ekki skemmtilegt

Árni Jóhannsson skrifar
Maté Dalmay var ánægður með sigurinn en honum fannst liðið sitt hafa getað betur.
Maté Dalmay var ánægður með sigurinn en honum fannst liðið sitt hafa getað betur. Vísir / Hulda Margrét

Haukar lögðu ÍR að velli í leik sem náði aldrei neinu flugi í Ólafssal í kvöld. Þjálfari liðsins gat verið ánægður með sigurinn en fannst sínir menn geta gert betur. Haukar unnu leikinn með 20 stigum, 93-73, og var sigurinn í raun og veru aldrei í hættu.

Maté  Dalmay þjálfari Hauka var spurður að því hvað hann hafi verið ánægðastur með í kvöld.

„Ég er ánægðastur með það hvað við gerðum betur í seinni hálfleik heldur en þeim fyrri. Við náðum að halda þessu í 10-15 plús forystu en þetta var ekki fallegt og ekki skemmtilegt.“

Hafði þjálfarinn einhverjar áhyggjur í upphafi leiks þegar sóknarleikur liðsins, í raun og veru beggja liða, var stífur og ekki upp á marga fiska?

„Nei nei. Þetta tók aðeins lengri tíma en ég vonaðist eftir. Ég vissi að við yrðum stirðir með Darwin Davis að koma inn eftir að hafa glímt við meiðsli í sex vikur ásamt landsleikjahléi þar sem lykilmenn voru með landsliðinu. Það tók lengri tíma en ég hélt og fór aðeins að ganga betur í þriðja leikhluta og það komu augnablik af fallegum körfubolta en þetta var ekki gott.“

HAnn var þá spurður að því hvort það hafi ekki verið aðalverkefni hans sem þjálfara að passa upp á að hans menn myndu ekki missa niður dampinn.

„Við náttúrlega missum alltaf niður dampinn þegar við komumst í 20 stiga forystu. Burtséð frá því hvernig ég rótera liðinu, stundum var ég aðeins lengur inn á með lykilmenn. Ég prófaði allar útgáfur af róteringunni en það gerðist það sem allir vita, þegar þú kemst 20 stigum yfir þá detta gæðin niður. Við tókum ömurlegar ákvarðanir í sókn og vorum sloppy í vörn og þetta fór alltaf helvíti hratt niður í 13 stig.“

En það hlýtur að vera gott að hafa náð í sigurinn?

„Mjög gott. Lífsnauðsynlegt. Við erum 4-2 og svo er það bara Njarðvíki úti næst og við ætlum okkur að vera 5-2 eftir þann leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×