Skoðun

Út­tekt á um­kvörtunum í garð MAST

Linda Karen Gunnarsdóttir skrifar

Dýraverndarsamband Íslands (DÍS) hefur gagnrýnt vinnubrögð Matvælastofnunar (MAST) harðlega að undanförnu vegna hægra viðbragða í málinu í Borgarbyggð þar sem um var að ræða alvarleg vanhöld á dýrum. Þegar litið er til vinnubragða stofnunarinnar í því máli er ljóst að ástandið varðandi búfjáreftirlit er háalvarlegt varðandi dýr í neyð.

Ríkisendurskoðun hefur ákveðið að gera stjórnsýsluúttekt á eftirliti á MAST með velferð dýra. Dýraverndarsambandið fagnar þeirri ákvörðun og telur hana nauðsynlega. MAST hefur farið með eftirlitið s.l. átta ár og gegnir þar með mikilvægu hlutverki í málefnum dýravelferðar. Eftirlit með velferð dýra þarf að vera skilvirkt, gagnsætt og fyrirbyggjandi. Mikilvægt er að þeir aðilar sem sinna eftirliti með dýravelferð hafi burði til að geta brugðist hratt við þegar kemur að dýrum í neyð og að ferlar séu í samræmi við það.

Úttekt Dýraverndarsambandsins

Dýraverndarsambandið hefur ákveðið að vinna úttekt af reynslu af búfjáreftirliti MAST. Aflað verður gagna um þá gagnrýni og þær rökstuddu umkvartanir sem hafa verið hafðar í frammi gagnvart eftirliti MAST með velferð dýra frá árinu 2014, þegar eftirlitið færðist til stofnunarinnar frá sveitarfélögunum. Dýraverndarsambandið mun einnig leggja fram tillögur til úrbóta. Ágúst Ólafur Ágústsson vinnur úttektina fyrir sambandið.

Dýraverndarsamband Íslands leitar hér með til almennings varðandi reynslu af úrvinnslu og eftirliti MAST með velferð dýra og biður fólk sem er reiðubúið að veita upplýsingar að hafa samband á abending@dyravernd.is.

Höfundur er formaður DÍS.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×