Umræðan

Meiri hagsmunum fórnað fyrir minni

Árni Grétar Finnsson skrifar

Íslenskt efnahagslíf er háð farsælum viðskiptum við önnur ríki til að viðhalda góðum lífskjörum. Í fámenninu felast mikil tækifæri en um leið takmarkanir. Þess vegna er mikilvægt að umgjörð alþjóðlegra viðskipta sé til þess fallin að styðja við þá augljósu hagsmuni sem samvinna við erlenda aðila felur í sér fyrir þjóð eins og okkar.

Tengsl beinnar erlendrar fjárfestingar og hagvaxtar eru ótvíræð og fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að bein erlend fjárfesting auki bæði framleiðni og hagvöxt. Dæmin sýna að tækifæri til aukinnar innlendrar fjárfestingar og uppbyggingar aukast með aðkomu erlendra fjárfesta. Til dæmis komu erlendir fjárfestar að nærri níu af hverjum tíu fjármögnunarlotum hjá íslenskum sprotafyrirtækjum á árinu 2021.

Það er í þessu ljósi sem ber að skoða frumvarp forsætisráðherra til laga um rýni á fjárfestingum erlendra aðila vegna þjóðaröryggis og allsherjarreglu. Um er að ræða mikilvæga löggjöf um grundvallarhagsmuni Íslands. Með hugtakinu rýni er átt við greiningu og mati á því hvort eignarhald eða yfirráð erlendra aðila á fyrirtækjum eða fasteignum hér á landi skapi ógn fyrir þjóðaröryggi eða allsherjarreglu.

Alþjóðastofnanir hafa ítrekað bent okkur á að leita leiða til að draga úr víðtækum hindrunum þegar kemur að erlendri fjárfestingu en nú á þvert á móti að gefa í, án þess að fyrirliggjandi regluverk sé endurskoðað samhliða.

Flest ríki EES og OECD hafa sett sér rýnilöggjöf á undanförnum árum og tilefni lagasetningarinnar hér á landi virðist fyrst og fremst stafa af þeirri erlendu réttarþróun. Að gera eins og aðrir hafa gert. Hér á landi virðist þó, eins og oft áður, eiga að ganga lengra en þau lönd sem við berum okkur helst saman við, þrátt fyrir að Ísland sé nú þegar með einna ströngustu reglurnar þegar kemur að erlendri fjárfestingu, langt yfir meðaltali OECD. Alþjóðastofnanir hafa ítrekað bent okkur á að leita leiða til að draga úr víðtækum hindrunum þegar kemur að erlendri fjárfestingu en nú á þvert á móti að gefa í, án þess að fyrirliggjandi regluverk sé endurskoðað samhliða.

Sú lagasetning sem frumvarpið boðar er afar víðtæk og mun leiða af sér laga- og reglugerðarumhverfi sem felur í sér enn meiri hindranir en nú eru til staðar. Samanburður við önnur lönd gefur til kynna að stjórnvöld hyggist ganga lengra en það sem þekkist erlendis. Atvinnugreinar sem heyra undir hið erlenda regluverk eru færri og afmörkunin bæði þrengri og skýrari en samkvæmt frumvarpinu.[1]

Þá mun ráðherra, ólíkt kollegum hans erlendis, hafa yfirgripsmikla heimild til inngrips og hafa í senn eftirlit með og ákvörðunarvald um erlendar fjárfestingar hér á landi. Með slíku fyrirkomulagi er hætta á að mál verði gerð að pólitísku bitbeini og með hliðsjón af þeim ríku hagsmunum sem eru undir í afgreiðslu umsókna er mikilvægt að heimildir ráðherra verði ekki of víðtækar og óljósar.

Ekki hlustað á viðvörunarbjöllur

Bent hefur verið á að enn hafi ekkert efnahagslegt mat farið fram á áhrifum frumvarpsins, þrátt fyrir að þau séu líklega veruleg, og enn liggi ekki fyrir stefna stjórnvalda um beina erlenda fjárfestingu. Það gefur augaleið að málið er ekki fullþroskað og grundvallaratriði enn óleyst og óútskýrð í frumvarpinu.

Þá mun ráðherra, ólíkt kollegum hans erlendis, hafa yfirgripsmikla heimild til inngrips og hafa í senn eftirlit með og ákvörðunarvald um erlendar fjárfestingar hér á landi.

Samtök atvinnulífsins hafa bent á að mögulegar hindranir geti haft neikvæð áhrif á áhuga fjárfesta og vilja þeirra til að láta reyna á fjárfestingar á Íslandi. Þá hefur fjöldi íslenskra frumkvöðla og forstjóra nýsköpunarfyrirtækja sem hafa sótt tugi milljarða í alþjóðlega fjárfestingu í íslensk nýsköpunarfyrirtæki undanfarin ár, einnig gert alvarlegar athugasemdir við frumvarpið í umsögnum sínum. Mikilvægt er að aðilar sem eftirsóknarvert er að taki þátt í íslensku atvinnulífi veigri sér ekki við því vegna þess að hætta sé á að mál tefjist meðal annars vegna þess að aðkoma erlendra aðila sé að ósekju gerð neikvæð eða tortryggileg.

Samtökin hafa talað fyrir daufum eyrum. Raunar hefur forsætisráðuneytið hafnað því að fyrirhugað frumvarp hafi skaðleg áhrif á erlenda fjárfestingu hérlendis á þeim grundvelli að ekki séu til erlendar rannsóknir sem sýni fram á það. Það er ekki trúverðugur málflutningur. Þær kvaðir sem felast í sérstakri rýni og samþykktarferli auka kostnað og áhættu mögulegra fjárfesta og hafa þannig augljósan fælingarmátt, jafnvel þótt fjárfestingum sé almennt ekki hafnað.

„Verði um einhver fælingaráhrif að ræða, má ganga út frá því að þau verði bundin við áhættusama aðila sem ekki sjá fram á að standast rýni samkvæmt frumvarpinu,“ sagði í viðbrögðum forsætisráðuneytisins við umsögn Samtaka atvinnulífsins um málið. Ekki er vísað í neinar erlendar rannsóknir til stuðnings þessum fullyrðingum.

Forsætisráðuneytið hefur hafnað því að fyrirhugað frumvarp hafi skaðleg áhrif á erlenda fjárfestingu hérlendis á þeim grundvelli að ekki séu til erlendar rannsóknir sem sýni fram á það. Það er ekki trúverðugur málflutningur.

Betur má ef duga skal þegar kemur að erlendri fjárfestingu en hún er hlutfallslega lítil á Íslandi samanborið við önnur OECD ríki. Hlutfall beinnar erlendrar fjárfestingar inn í landið af vergri landsframleiðslu, sem var ríflega 30% í fyrra, mælist afar lágt í samanburði þjóða. Ísland skipar þar 61. sæti af 63. ríkjum í úttekt IMD háskólans á samkeppnishæfni ríkja fyrir árið 2022. Til samanburðar var hlutfallið um 56% að meðaltali innan OECD og 48% í heiminum öllum á árinu 2021. Raunar hafa umsvif beinnar erlendrar fjárfestingar dregist saman hér á landi undanfarin ár þegar litið er til beinnar erlendrar fjárfestingar sem hlutfall af landsframleiðslu. Þetta er óheillaþróun sérstaklega þegar litið er til þess að fjárfestingarstig hefur almennt verið lágt hérlendis á undanförnum árum og leita þarf leiða til að auka það.

Það er nauðsynlegt að fram fari heildarendurskoðun á löggjöf um erlenda fjárfestingu, að stefna stjórnvalda sé skýr og efnahagsleg áhrif metin áður en ráðist er í lagasetningu sem þessa. Það er einfaldlega of mikið undir.

Þrátt fyrir verðug markmið laganna má það ekki verða hliðarafurð að við fórnum meiri hagsmunum fyrir minni og mögulega lokum á eða þrengjum fyrir fjárfestingar sem eru mikilvægar fyrir íslenska hagsmuni til framtíðar.

Höfundur er lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins.

[1] Einnig ber að vísa til Álits ESA nr. 54/14/COL frá febrúar 2014. Þar kom fram að tilkynningarskylda núverandi laga væri of víðtæk og óþarflega íþyngjandi. Þar var einnig tekið fram að aðrar útfærslur gætu dugað til að ná fram því markmiði sem stefnt var að með tilkynningarskyldunni. Ekki verður betur séð en að frumvarpið hafi sama ágalla í för með sér.


Tengdar fréttir

Áform ráðherra leið­i til þess að frum­kvöðl­ar stofn­i fyr­ir­tæk­i er­lend­is

Margir af máttarstólpum nýsköpunargeirans telja að ef lagafrumvarp um innleiðingu á rýni á erlendum fjárfestingum vegna þjóðaröryggis verði að lögum í óbreyttri mynd muni íslenskir frumkvöðlar í auknum mæli kjósa að stofna fyrirtæki erlendis um starfsemina til að komast hjá íþyngjandi áhrifum þess. Frumkvöðlar og fjárfestar í nýsköpun telja að frumvarpið muni hafa „verulega íþyngjandi áhrif á íslensk nýsköpunarfyrirtæki“ og dragi úr möguleikum þess að verða sér úti um alþjóðlegt fjármagn en lítið sé um sérhæfða fjárfesta sökum smæðar landsins.

Frum­­varp­­ ráðherra dregur ver­­u­­leg­­a úr erlendri fjárfestingu sem er lítil fyrir

Samtök atvinnulífsins gagnrýna að ekkert efnahagslegt mat liggi fyrir hver séu áhrif lagafrumvarps sem innleiði á rýni á erlendum fjárfestinga þjóðaöryggis. „Þau eru að öllum líkindum veruleg,“ segja samtökin, sem telja mikilvægt að stefna stjórnvalda liggi fyrir um beina erlenda fjárfestingu áður en ráðist sé í lagasetningu sem þessa. Erlend fjárfesting sé hlutfallslega lítil á Íslandi samanborið við önnur OECD ríki og hún hafi raunar dregist saman hér á landi undanfarin ár þegar litið sé til hlutfalls af landsframleiðslu.




Umræðan

Sjá meira


×